Hvar eru skáldin okkar?

Vér hlutum af feðrunum sigurfræg sverð
og sagnir um frjálshuga drengi,
og hörpuna gömlu vér eigum að erfð
með ósvikna, hljómdjúpa strengi.
— En nú þarf að stilla hvern streng, sem hún á
og stálið vort góða úr ryðinu slá.

Hér skortir ei máttinn. Þó mikið ei vinnst
til menningar, sælu og þarfa;
af tanganum fremst og í afdalinn innst
frá æsku til grafar menn starfa,
— hví standa svo menn eptir stríð og raun
með stritkrepptar hendur og engin laun?

Hvað er það, sem bannar svo auganu' að sjá,
og eyranu sannleik að heyra?
Hvort stafa ei óvættir okinu frá
sem andann í fangelsi keyra?
Hvað stoðar að eiga sér styrk og þor
ef stigið er öfugt í blindni hvert spor?

Vér þurfum að opna vor augu, að sjá,
og eyru vor sannleik að heyra —
og vinna um leið allt sem vinna má
á vegi til annars — og meira.
Það tekst oss, ef leyst verður lýðsins hönd,
ef leyst verða af fólkinu andans bönd.

Vér þurfum að sættast, slá hendi í hönd
og hatrinu' í bróðerni gleyma.
Með frelsis vors óvin á erlendri strönd
er óvit að kýtast hér heima.
í sameining vorri er sigur til hálfs,
í sundrungu glötun vors réttasta máls.

En kaupi sér nokkur manns vinskap og vild
því verði, að Ísland hann svíki,
skal byggja' honum út, inn í fjandmanna fyigd
og föðurlandssvikarans ríki.
Þar skipta ei flokkunum skoðanir manns,
Þeir skiptast um hagnað, — og tjón þessa lands.
------------------------------------------------------------------------------------------------------

Svona orti Einar Benediktsson árið 1895.  Þessi texti er tekinn úr Þjóðólfi. Textinn í Kvæðasafni Einars sem Bragi gaf út 1964 er aðeins frábrugðinn. Ekki veit ég hvor er réttur en það gæti verið að Einar hafi hnikað til orði frá upprunalegri gerð. það er algengt.

En takið eftir andagiftinni? Svona yrkja engin skáld í dag. Ég leyfi mér að fullyrða að Einar var okkar mesti andans jöfur fyrr og síðar. Hans breyzkleiki breytir engu um þá skoðun mína. Og þau smámenni sem núna ráða hér öllu ættu að skammast sín hvernig komið er fyrir landi og þjóð.

Takið sérstaklega eftir síðasta erindinu og berið það saman við styrkja og mútugreiðslur til stjórnmálamanna í undanfara hrunsins. 

Og föðurlandssvikararnir eru enn að. Einar sagði líka:

Vér þurfum að sættast, slá hendi í hönd
og hatrinu' í bróðerni gleyma.
Með frelsis vors óvin á erlendri strönd
er óvit að kýtast hér heima.

Á þetta ekki við einmitt núna þegar óprúttin öfl vilja troða okkur í ESB?

eða þetta

Hvað er það, sem bannar svo auganu' að sjá,
og eyranu sannleik að heyra?
Hvort stafa ei óvættir okinu frá
sem andann í fangelsi keyra?
Hvað stoðar að eiga sér styrk og þor
ef stigið er öfugt í blindni hvert spor?

Er ekki stjórnin einmitt að stíga í blindni? Og skerða tjáningarfrelsið?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband