2.6.2011 | 05:06
Enn um þjóðareignarhugtakið
Ég sakna rökræðu hér á þessu bloggi um þann skilning minn að þjóð geti ekki slegið eign sinni á það sem ég kalla hlunnindi til aðgreiningar frá auðlindum. Ég er að tala aðallega um villt dýr, spendýr , fugla og fiska. Ég veit ekki um neina þjóð sem hefur í stjórnarskrá, slegið eign sinni á þau dýr sem lifa villt í náttúrunni en hins vegar hafa allar þjóðir helgað sér nýtingarrétt til að veiða og vernda eftir því sem við á. Frumbyggjaréttur hefur í þessu sambandi verið viðurkenndur af alþjóðasamfélaginu. En Íslendingar, þetta furðulega ættbálkasamfélag hirðir ekki um þjóðarrétt frekar en mannréttindi þegnanna. Með fiskveiðistjórnarlögunum 1991 slógu Íslendingar eign sinni á fiskstofnana í hafinu við Ísland og í framhaldinu gáfu spillt stjórnvöld mjög fámennum hópi kvótagreifa, heimild til að eignfæra þessi hlunnindi sem eiga bara að vera í umsjá okkar en ekki eigu. Þessi ólög eru enn í gildi þrátt fyrir að rekja megi lögbrotin í bönkunum varðandi markaðsmisnotkun og bókhaldsblekkingar til þessa skyndigróða sem var bara bóla. Ætla hefði mátt að menn hefðu notað tækifærið sem bankahrunið olli til að strika þetta gervifjármagn út úr þjóðhagsbókhaldinu í eitt skipti fyrir öll. En nei fyrirhyggjuleysið og skilningsleysið var algjört enda voru það siðblindir bankamenn og endurskoðendur sem helst voru fengnir til skrafs og ráðagerða við endurreisn fjármálakerfisins.
Alla tíð hafa deilur staðið um þetta meinta eignarhald á fiskinum í sjónum. En núna virðist svo komið að þjóðin hefur verið heilaþvegin og flest öllum finnst þetta vera hið besta mál bara ef ríkið braski með þessi gerviverðmæti. Þar ræður náttúrulega mestu að stjórnmálastéttin vill ná og halda yfirráðum yfir öllum sameiginlegum verðmætum þjóðarinnar og ráðstafa þeim í eigin þágu og vildarvina. Þetta er hið raunverulega takmark. En til að blekkja fólk þá er talað fjálglega um auðlindir og auðlindarentu sem allir gleypa við því fólk er fífl og er alltaf tilbúið til að láta ljúga að sér. Skoðum bara hvernig stjórnmálastéttin hefur slegið eign sinni á Þingvelli og útdeilir þar sumarbústaðalóðum til vina og ættingja eins og um sé að ræða þeirra einkaeign. Þannig fer um allar ríkiseignir. Þær enda alltaf í höndum flokksgæðinganna með einum eða öðrum hætti og með reglulegu millibili. Þannig fór með kvótann og þannig verður farið með allar auðlindir í eigu þjóðarinnar ef við leyfum hugmyndum stjórnmálamanna um auðlindaákvæði að ganga eftir. Þess vegna svíður mér að engin almenn umræða er um þjóðareignar hugtakið í sambandi við breytingar á fiskveiðistjórnarlögum. Ætla menn bara að láta þessar fyrirætlanir ganga eftir og brjálast síðan á blogginu í nokkra daga þegar of seint er að taka í taumana?
Íslendingar eru fífl en eru þeir raunverulega það mikil fífl eftir allsherjarhrunið 2008? Sorrí en þjóðin getur bara alls ekki slegið eign sinni á fiskinn í hafinu. Fiskurinn er ekki auðlind og þess vegna á ekki að leyfa fjármagnseigendum að braska með þessi hlunnindi á kostnað frelsis og frumbyggjaréttar þeirra sem vilja stunda hér fiskveiðar að atvinnu. Það er allt í lagi að setja lög um veiðar og verndun ef þau lög hafa skírskotun í almannahag en að takmarka atvinnuréttindi manna með því að veita örfáum einkarétt til að veiða of lítið gengur ekki upp. Hér eru svívirðileg stjórnarskrárbrot látin viðgangast og öllum er sama!! Og menn skulu ekki halda að neitt breytist þótt ríkið taki yfir þessi eignarréttindi sem búin hafa verið til á ólöglegan hátt. Nýja fiskveiðifrumvarpið veitir ráðherra alræðisvald til að deila og drottna. Og hann setti meira að segja inn sérákvæði um kvóta til áframeldis á þorski. Ákvæði til að tryggja syni sínum öruggt ævikvöld á kostnað okkar hinna. Spilling- Spilling - Spilling!
Þegar við stækkuðum efnahagslögsögu okkar í 200 mílur, vorum við ekki að slá eign okkar á fiskinn sem syndir innan lögsögunnar. Við tókum okkur hins vegar rétt til að stjórna veiðum og vernd. Því miður höfum við misfarið herfilega með þennan rétt. Við leyfðum rányrkju með kvótasetningu og það var vísvitandi leyft að veiða alltof lítið magn af fiski til að stýra verði á mörkuðum. Það er stóri glæpurinn. Og þetta má ekki ræða. kvótagreifar eru orðnir svo valdamiklir að þeir stjórna viðhorfum þeirra sem eru þeim háðir með atvinnu og lífsafkomu. það er gífurleg ábyrgð sem atvinnuveitendur bera og þess vegna verður að berjast á móti því með öllum ráðum að hér verði til of stór fyrirtæki og viðskiptablokkir. Kjörið tækifæri er að stýra því varðandi sjávarútveginn. Enda er frumbyggjarétturinn sem við eigum að byggja á varðandi nýtingu sjávarfangs, í eðli sínu einyrkjaréttur. Frumbyggjarétturinn er nýtingarréttur ekki eignarréttur.
Með því að útrýma eignaréttar ranghugmyndum stjórnmálastéttarinnar , þá útrýmum við félagslegu ranglæti og fátækt. Reisum við fjárhag sveitarfélaga og sköpum nýtt og betra Ísland sem stjórnmálastéttin á ekki að fá heimild til að braska með undir yfirskini blekkinga um þjóðareign á náttúruauðlindum. Og skilið okkur Þingvöllum, helvítis aumingjarnir ykkar
Flokkur: Stjórnarskrármálið | Breytt 9.2.2013 kl. 17:12 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.