Hafna ber ríkisafskiptum af sjávarútvegi

Frumvörp þau sem nú liggja fyrir þinginu um breytingar á fiskveiðistjórninni eru ömurlegur vitnisburður um þá ríkisvæðingu sem hér hefur markvisst verið unnið að undir forystu núverandi stjórnarflokka. Alræði stjórnmálastéttarinnar má vel kalla þessa stefnu þar sem sífellt er verið að setja lög og reglur sem takmarka rétt borgaranna en auka að sama skapi heimildir ríkisins og þar með stjórnmálastéttarinnar til að ráða fyrir þjóðinni. Ótal dæmi höfum við séð en engin samt jafn vitlaus og þessi 2 frumvörp Jóns Bjarnasonar um breytingar á fiskveiðistjórnarlögunum. Þeir sem á annað borð nenna að lesa þessa þvælu sjá að tilgangurinn er aðeins einn og hann er sá að veita stjórnvöldum alræðisvald við stjórn fiskveiða og úthlutun aflaheimilda.  Í staðinn fyrir minna frumvarpið hefði allt eins getað verið ein viðbót sem segði að sjávarútvegsráðherra gæti að eigin geðþótta sett reglur um allt sem lyti að stjórn veiðanna.  Því um það snýst þetta frumvarp.

Ég hafna þessari alræðisstefnu. Ríkisafskiptin hafa alltaf komið atvinnuvegunum í þrot. Offjárfestingin í skuttogurunum á árunum 1970-1980 var alfarið á ábyrgð stjórnmálamanna og tilheyrandi kjördæmapots. Og gengisfellingarnar voru alltaf að beiðni fiskvinnslunnar og sölusamtakanna sem voru líka undir stjórn pólitukasanna í samræmi við helmingaskiptaregluna. Kvótakerfið og framsalið hefur svo núna síðustu ár leitt af sér aflasamdrátt upp á 200.000 tonn í þorski og fækkað störfum í sjávarútvegi um 10.000 ársverk. Allt í nafni hagræðingar hinna fáu á kostnað lífsafkomu hinna mörgu. Í þetta kerfi vilja stjórnmálamenn nú halda, bara ef þeir fá að braska með kvótann en ekki greifarnir. Hin skapandi hugsun er ekki til á þingi. Alþingismenn sem vilja setja lög eins og núna stendur til að gera eru ekki að vinna í þágu heildarhagsmuna þjóðarinnar. Og útgerðarmenn og sjómenn sem vilja óbreytt kerfi eru bara að hugsa um eigin hag. Þetta er sorglegt þegar staðreyndin er sú að það er hægt að tvöfalda kökuna til hagsbóta fyrir alla. Bara með því að aflétta afskiptum ríkisvaldsins af fiskveiðistjórninni og taka upp markaðsdrifna sóknarstýringu án afskipta stjórnmálamanna og ráðherra. Það eru til margfalt betri leiðir til að stýra sókninni heldur en kvótasetning. Það er löngu tími til kominn að aflétta hér ríkisstyrktu lénskerfi í sjávarútvegi og auka atvinnufrelsið í greininni.   Við getum margt lært af Færeyingum.  Til dæmis hvernig á að skrifa stjórnarskrá og stjórna fiskveiðum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband