17.9.2011 | 14:34
Draumur eða martröð
Norðurþing er tiltölulega fámennt sveitarfélag með innan við 3000 íbúa. Samt ala þeir með sér stóra drauma. Drauma um virkjanir og stóriðju og samstarf við kínverja sem gæti keypt allar jarðir í sveitum Þingeyjarsýslna og greitt fyrir úr ríkissjóði kínverska alþýðulýðveldisins. Þessa drauma ala menn enn með sér fyrir norðan þrátt fyrir reynsluna af Samherja frændum á Akureyri sem hafa ryksugað til sín kvóta af öllum litlum útgerðum frá Gjögri að Glettingi og skilið byggðir eftir í rústum. Fyrir norðan hampa menn ennþá Samherja og skilja ekki að eftir því sem fyrirtæki verða stærri, þeim mun meiri ógn eru þau fyrir samfélagið. Þeir sem standa í forsvari fyrir sveitarfélög bera ábyrgð og þeir þurfa að vera vandanum vaxnir. Sveitastjórnarmenn á Íslandi eru víðast hvar ekki vandanum vaxnir og sérstaklega ekki þeir sem ráða för í Norðurþingi og í Reykjanesbæ. Þingeyingar áttu sína orkuveitu en seldu hana útlendingum. Reykjanesbær átti sína orkuveitu og seldi hana útlendingum. Orkan var þeirra mjólkurkýr en nú hirða aðrir mjólkina og selja útúr héraði en leiguliðar þeirra fá að lepja undanrennuna um ókomna framtíð. Og núna væla þessir sömu aðilar eftir aðstoð frá ríkinu um virkjanir til að selja útlendingum rafmagn til álframleiðslu. Og það engum smáfyrirtækjum. ALCOA er í eigu Kínverja og er nu þegar ráðandi í atvinnumálum á Austurlandi. Þessu fyrirtæki eru Norðlendingar tilbúnir að selja sig á hönd í skiptum fyrir 500 ársverk. En það er það sem stendur eftir þegar framkvæmdum er lokið við byggingar. Arðurinn af rekstrinum fer svo í vasa hinna alþjóðlegu Björgólfa sem eiga ALCOA og þegar ALCOA verður komið með 2 verksmiðjur sem nota þriðjunginn af allri raforkuframleiðslu Landsvirkjunar þá eru það þeir í krafti stærðar sem ákveða verðskrána en ekki Landsvirkjun. Þetta skulu menn hafa á tæru. Stórfyrirtækin hugsa ekki um samfélagslega ábyrgð. Alþjóðafyrirtækin arðræna og eyðileggja og þau geta ekki stoppað, þau þurfa sífellt að finna nýja hráefnissala og ný samfélög til að eyðileggja. Þetta erþeirra eðli og það er barnaskapur að halda að Álrisar slái af arðsemiskröfum hér á landi!
Samherji starfar í anda alþjóðahyggjunnar, Samherji stundar arðrán við strendur Afríku og Suður- Ameríku. Samherjamönnum kemur ekkert við hvort mannlíf þrífst í Hrísey eða á Húsavík eða á Raufarhöfn. Samherji er hundur og sveitastjórnarmenn á svæðinu eru rófan. Og allir vita að það er hundurinn sem dillar rófunni en ekki öfugt. Atvinnumál eru mál málanna og lítil samfélög þurfa öðrum fremur á litlum einingum að halda. Smábátaútgerð er það sem hentar þessum byggðarlögum best í bland við fiskvinnslu og léttan iðnað. Fólk á svæðinu á ekki að láta talsmenn auðvalds og gróðapunga villa um fyrir sér. Fólk á svæðinu þarf að vakna áður en álversdraumurinn snýst upp í martröð. Ef ALCOA fær að reisa álverksmiðju á Bakka og ef Huang fær að kaupa Grímsstaði á Fjöllum þá verða Norðlendingar endanlega búnir að gefa eftir sjálfsákvörðunarrétt til að ráða sínum málum. Fulltrúar ALCOA og Huangs ásamt fulltrúum Samherja, munu eiga sína leppa í sveitastjórn Norðurþings og þeir munu taka ákvarðanir sem henta húsbændum þeirra en ekki nærsamfélaginu. Það er martröðin sem boðið er uppá af þeim sem nú ráða för.
Alcoa ræðir ekki raforkukaup | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:36 | Facebook
Athugasemdir
Ótrúlega vitlaust hjá þér, Jóhannes. Nenni ekki að færa rök fyrir því.
Menntaskólakrakkarök.
Gunnar Th. Gunnarsson, 17.9.2011 kl. 14:58
Takk fyrir "málefnalega" athugasemd Gunnar. Átti svo sem ekki von á öðru frá þér þar sem ég þekki þínar skoðanir meðal annars frá ótrúlega lítilmótlegum athugasemdum þínum við blogg skrif Ómars Ragnarssonar
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 17.9.2011 kl. 15:21
Það er margt vel sagt og skynsamlegt í pistli Jóhannesar Laxdals. Jóhannes varar við vissum hættum sem steðja að fávísum og grunnhyggnum sveitarstjórnarmönnum. Það er ekkert leyndarmál að þeir eru margir ekki vandanum vaxnir og hafa keyrt sveitarfélögin í þvílikan vanda, að þeir verða leikbrúður í höndum peningavaldsins. Um það þekkjum við ótal dæmi. Því eru athugasemdir Gunnars Th. ekki aðeins dónalegur, heldur einnig lágkúrulegar. Kemur mér hinsvegar ekki á óvart.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 17.9.2011 kl. 15:52
Takk fyrir þitt innlegg Haukur. Ég hélt að ekki færi á milli mála , að ég er fyrst og fremst að vara við valdi sem fyrirtækin taka sér í krafti stærðar. Forstjórar stórfyrirtækja eru ekki kosnir til að fara með hagsmuni almennings, samt taka þeir sér það vald og gera hagsmuni almennings að sínum hagsmunum. Samherji hafði val um að vera byggðarstólpi en varð græðgi eigendanna að bráð. Núna er Samherji ógn við byggðajafnvægi á öllu Íslandi
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 17.9.2011 kl. 16:11
Fyrirtæki eins og Samherji veita fjölda manna vinnu, skipin koma með fyrsta flokks hráefni að landi. Strandveiðikallinn veitir sjálfum sér vinnu og kannsi nokkrum öðrum. Strandveiðibáturinn getur verið fullkominn bátur með fyrsta flokks hráefni en hann getur einnig verið hriplek kæna sem kemur með fisk að landi sem er búinn að vera í stíu í fleiri tíma undir sól og varla bræðsluhæfur. Lítil fyrirtæki geta verið vel rekin en einnig er alkunna að þau eiga það til að fara á hausinn og eigendurnir skipta um kennitölur eins og sumir um nærbuxur og skilja eftir sig skuldasúpu sem við skattgreiðendur komum til með að borga. Ég veit ekki um neitt álfyrirtæki hér á landi sem hefur farið á hausinn en hjá þeim starfa fullt af fólki með alveg þokkalegar og öruggar tekjur sem veitir þeim heppnu sem vinna hjá þeim stöðuga innkomu og góðan lífeyri. Ég treysti frekar stöndugum fyrirtækjum eins og Samherja og Álrisunum fyrir stöðugleika heldur en einhverjum trillukarli sem hugsar eingungu um sjálfan sig og selur kvótan sinn og skilur byggðalagið eftir í rúst.
Það er verið að kenna fyrirtækjum eins og Samherja um að leggja byggðarlögin í rúst þegar það eru reyndar smábátakallarnir sem seldu þeim kvótann sem eru skúrkarnir. Þeir eru með milljónirnar meðan að byggðirnar blæða. Fyrirtæki eins og Samherji kaupa kvóta og veita fullt af mönnum vinnu og koma með úrvalshráefni að landi sem fer í gæðaflokk.
Ég veit um fullt af smábátasjómönnum sem seldu kvótann frá sér fyrir hrun og eru núna að koma sér aftur upp smábátum til að fara á strandveiðar, ætla sennilega að koma sér upp veiðireynslu og fá síðar aftur kvóta sem þeir geta svo selt aftur og aftur og aftur.
Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 17.9.2011 kl. 23:37
Jóhannes, flottur!
Veiddu 7 tólf kílóa þorska á dag x 12 kg. x 400 kr. x 30 dagar = Borgarstjóralaun.
Afléttum oki líú, krefjumst frjálsra handfæraveiða, sem leysa byggða, fátæktar
og atvinnuvanda Íslendinga. Nýtum fiskimiðin á sjálfbæran hátt, ekki eins og í dag,
ofurskip sægreifanna ganga svo um fiskimiðin að líkja má við náttúru hamfarir.
Allir fiskistofnar eru að gefa þjóðinni lítið brot af eðlilegum afla, þetta kallar
fátækt yfir þjóðina.
Veiðum meiri fisk, tökum færri lán.
Aðalsteinn Agnarsson, 18.9.2011 kl. 14:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.