5.10.2011 | 05:04
Bankasýslan og spillingin
Gleggsti mælikvarði á spillingu í opinberri stjórnsýslu er hvernig háttar með ráðningar í stjórnunar og valdastöður. Stjórnmálaflokkar eru meðvitaðir um að almenningur fylgist vel með og því gripu þeir til þeirra ráða að búa til fjöldann allan af sjálfstæðum stjórnvaldsstofnunum til að fjarlægja puttaförin af klíkuráðningunum. Ein af þessum stofnunum er Bankasýslan sem mikið hefur verið í sviðsljósinu eins og eðlilegt er. Fyrir það fyrsta þá var til hennar stofnað að ráði hins sænska ráðgjafa, Mats Josefsson sem hingað var fenginn til að hjálpa við endurreisn fjármálakerfisins í kjölfar bankahrunsins. Að vísu lagði hann til að öll stærstu fyrirtækin sem ríkið og bankarnir tækju yfir rynnu inn í þetta eignaumsýslufélag, en af því varð ekki vegna ágreinings við bankana sem öllu ráða. Í dag fer Bankasýslan að nafninu til með hlut ríkisins í bönkunmum og einnig þá sparisjóði sem ríkið endurreisti. Að nafninu til, vegna þess að fyrrverandi forstjóri fékk ekki þau gögn frá fjármálaráðherra sem hún þurfti til að sinna starfinu þótt svo væri látið heita að hún hefði hætt vegna ágreinings um fjárframlög til rekstrar. Þegar þetta er haft í huga þá er það greinilegt að Steingrímur J. er með puttann á starfsemi þessarar stofnunar og ræður því sem hann vill ráða. Hvaða baktjaldamakk varð til þess að Páll Magnússon var ráðinn er ekki gott að ráða í. Annað hvort var farið á bak við Steingrím eða að ráðningin er plott til að afla ríkisstjórninni stuðnings Framsóknarflokksins. Hvort ráðningin verði dregin til baka vegna þrýstings frá almenningi eins og gerðist með ráðningu í stól forstjóra ÍBL eða hvort skuldinni verði skellt á stjórn Bankasýslunnar þá hefur fjórflokkurinn enn á ný orðið uppvís að pólitískri spillingu. Því tengsl stjórnarformannsins við valdaklíku Framsóknar eru alltof greinileg og þessi ráðning hans á fyrrum aðstoðarmanni Valgerðar frá Lómatjörn of augljós. Krafan er náttúrulega sú að ráðningin verði gerð ógild og stjórn Bankasýslunnar látin taka pokann sinn. Á þessum tímum er ekki hægt að líða svona vinnubrögð. Allra síst þegar vel menntað og hæft fólk er að sækja um starfið í góðri trú og sér síðan að andverðleikarnir eru teknir fram fyrir vegna pólitískra tengsla. En best af öllu væri náttúrulega að hætta þessum leikaraskap og leggja allar þessar sjálfstæðu stjórnvaldsstofnanir niður sem hér hafa sprottið upp undanfarin ár undir því yfirskyni að verið sé að koma meiri fagmennsku á í stjórnsýslunni. Fiskistofa, Umhverfisstofnun, Landlæknisembættið, Fjölmiðlastofa og náttúrulega Bankasýslan eru dæmi um stofnanir sem ætti að leggja niður eða sameina ráðuneytunum eða flytja starfsemina aftur heim í héruð (Fiskistofa, umhverfisstofnun og fl.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 05:07 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.