9.12.2011 | 16:28
Framtíð án flokkanna
Stjórnskipunarfyrirkomulagið á Íslandi, sem var ákveðið af danska kónginum og samþykkt af íslenskum stjórnmálamönnum, árið 1944 hefur ekki reynst farsælt fyrir land og þjóð. Þrískipting valdsins hefur ekki haldið og lýðræðið hefur breytzt í alræði flokkanna. Og síðan hafa flokkarnir framselt vald sitt í hendur foringjunum í æ ríkari mæli. Alþingi er valdalaust sem slíkt og dómsvaldið þjónar yfirleitt sitjandi valdhöfum.
Þetta var sú mynd sem blasti við þegar tjöldin féllu og Ísland hrundi. En hefur eitthvað breytzt? Ekki get ég séð neinar stórar breytingar. Enda voru flestir aðal leikararnir klappaðir upp af heimskum múgnum og leyft að skipta um hlutverk í sama leikritinu. Og áfram er leikið í leikhúsi fáránleikans við Austurvöll.
Á meðan þjóðin er ringluð og ráðþrota þá grípa tækifærissinnar og populistar tækifærið og auka á glundroðann með stofnun enn eins stjórnmálaflokksins. Þetta er ekki fyndið, þetta er sorglegt. Guðmundur Steingrímsson og afsprengi Besta flokksins eru ekki að boða neitt nýtt. Þau ætla sér bara bita af kökunni. Og af hverju eru Borgarahreyfingin og Hreyfingin að taka saman höndum með Frjálslynda Flokknum? Frjálslyndi Flokkurinn er afsprengi óánægðra sjálfstæðismanna sem misstu völd. Er eitthvað sem bendir til að þar séu komnir lausnarar samfélagsins? Ég held ekki.
það sem þarf er breiðfylking óháðra manna sem hefur aðeins eitt markmið og það er að breyta kerfinu. Uppræta hina pólitísku spillingu í eitt skipti fyrir öll og banna stjórnmálaflokkum að skipuleggja sig og mynda stofnanir. Því flokkarnir eru hin eiginlega ógn við lýðræðið og almannahag. Í flokkunum verða til valdaklíkur og bandalög sem skammta sér og sínum bittlinga og áhrif með það fyrir augum að tryggja sérhagsmunina á kostnað almannahagsmuna. Þetta á við um alla flokka. því þeir sem ráða hafa búið til valdapíramída um sjálfa sig sem gerir almenningi ómögulegt að hafa nokkur áhrif. Þetta á við um öll samtök sem þróast í að verða að stofnunum. Fyrir utan stjórnmálaflokkana eru Así, Lífeyrissjóðirnir og Kirkjan gott dæmi um svona hierarchy.
Við þurfum nýja stjórnarskrá. Um það er ekki deilt. En þessi sem samin var í sumar af umboðslausu stjórnlagaþingi gengur ekki nógu langt. Það vantar ákvæði sem bannar glæpaklíkum að starfa hér á landi. Undir þá skilgreiningu falla öll félög og félagasamtök sem vinna gegn almannahagsmunum. ss stjórnmálasamtök, bifhjólaklíkur og fjárfestingarfélög bófa og ræningja.
En til að setja slík ákvæði í stjórnarskrá þarf óhrædda þjóð. Og þjóðin öðlast ekki frelsi fyrr en ógnvaldurinn hefur verið gerður áhrifalaus. Ef við þurfum að gera byltingu til að ná þessu markmiði þá gerum við bara byltingu en gerum það á okkar forsendum, ekki undir stjórn pólitískra loddara og sprelligosa.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:06 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.