Mál málanna

Skoðanakönnun Fréttablaðsins um fylgi við stjórnmálaflokkana er mál vikunnar.  Allir keppast við að rýna í niðurstöðuna eins og um mikinn sannleik sé að ræða en gleyma að spyrja út í formið og forsendurnar og trúanleik þess sem framkvæmdi þessa könnun.

Eina ályktunin sem ég get dregið af þessari svokölluðu "skoðanakönnun" og túlkun hennar er að gullfiskaminnið er ennþá helsti dragbítur á pólitískar framfarir á Íslandi. Það sannar hið mikla fylgi við framboð Lilju, sem nota bene var kynnt í öllum fjölmiðlum daginn fyrir þessa könnun.  Nú eru allir búnir að gleyma Gumma Steingríms og hans björtu framtíð og eftir 2-3 vikur mun hið sama gerast með Samstöðu.  Enda hvorug framboðin fullkomlega mótuð og hvorug framboðin boða miklar breytingar. 

En svo vaknar spurningin um framkvæmdina. Hvernig voru spurningarnar orðaðar? Voru menn leiddir áfram með því að telja upp þessi nöfn á framboðum sem flestum eru ókunn eða var til dæmis Lýðræðishreyfingin hans Ástþórs í alvöru tilnefnd sem alvöru valkostur!! Ég á erfitt með að trúa því.

Af þessum ástæðum gef ég lítið fyrir spágildi þessarar könnunar. Hún var alls ekki tímabær og ekki framkvæmd af áreiðanlegum aðilum og gefur ekkert til kynna um hug landsmanna til stjórnmálaflokkanna sem hér starfa enda helmingur úrtaksins ekki tilbúið til að svara. Og stjórnmálaskýrendur eiga ekki að tjá sig um svona Fréttablaðs uppákomur. Það er þeim til álitshnekkis.

Eina sem vitað er með vissu er að hér ríkir mikil óvissa og fæstir eru ánægðir með þær aðgerðir sem gripið hefur verið til í kjölfar efnahagshremminganna. Það þarf meira til en nokkra millistéttaraula í flokki sem kallar sig Samstöðu til að skírskota til breiðrar samstöðu.  Hér þarf að koma fram einstaklingur sem gustar af til að hrífa fólk með sér í nýjan stjórnmálaflokk. Enginn af þessum nýju framboðum hefur slíkan foringja enn sem komið er. Lilja er ágæt í hugmyndavinnu en hún hefur engan kjörþokka.  Guðmundur Steingríms er svo ekki einu sinni hugmyndasmiður hvað þá hugsjónamaður. Enda vilja flestir bjarta framtíð án ESB.

Ég hef hingað til verið sammála flestu sem Hreyfingin hefur sagt um þjóðfélagsumbæturnar en mér hugnast ekki samruninn við Frjálslynda Flokkinn, sem er ennþá spillingarangi fjórflokksins, (sbr málaferlin út af styrknum sem Ólafur stal frá þeim)

Hér þarf byltingarhreyfingu sem kemur með einfalda og skýra þjóðfélagssýn þar sem einstaklingurinn er í öndvegi. Þetta fulltrúalýðræði hefur ekki gefist vel.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband