29.2.2012 | 17:23
Takk Valgerður Bjarnadóttir
Ég játa það að ég hef ekki borið fullt traust til Valgerðar Bjarnadóttur, sem formanns Eftirlits og Stjórnskipunarnefndar Alþingis. Kemur þar margt til, svo sem umfang þeirra mála sem nefndin hefur til umfjöllunar en ekki síst hver hún er. En hún sannaði með framsögu sinni í dag, fyrir áliti meirihluta eftirlits og stjórnskipunarnefndar, um að vísa beri tillögu um afturköllun saksóknar á hendur Geir H Haarde, frá , að hún er fullkomlega heil í pólitískri afstöðu sinni til allra mála. Og það ber að virða. Það hlýtur að vera erfitt fyrir hvaða manneskju sem er að rísa upp gegn fjölskyldu sinni og frændgarði í pólitískri andstöðu til þjóðmálanna eins og hún hefur gert. Og munum það að hún er ekki hver sem er. Hún er dóttir Bjarna Benediktssonar fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins og þess manns sem mest áhrif hafði hér á landi í áratugi og systir Björns Bjarnasonar fv. þingmanns, ritstjóra og ráðherra og hún er af Engeyjarætt, einni bláustu íhaldsætt á Íslandi!! Það er þó nokkuð. Margir hefðu valið þann kostinn að gefa einfaldlega ekki kost á sér til setu á Alþingi en ekki baráttukonan Valgerður Bjarnadóttir. Fyrir það á hún virðingu skilið. Virðingu sem verður að telja næsta fágæta einkunn, um Alþingismann á þessum tímum. Þó hefur einn annar þingmaður vakið athygli mína fyrir yfirburða þekkingu og óhlutdrægt mat á þingmálum, en þar er ég að tala um Magnús Norðdahl, yfirlögfræðing ASÍ. Sá maður á sér bjarta framtíð í pólitík ef hann það kýs sér. Reyndar er þarna kominn framtíðarleiðtogi Samfylkingarinnar að mínu mati. Það er að segja fyrst menn þar á bæ vilja ekki kalla Stefán Jón Hafstein til starfa..
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:53 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.