11.3.2012 | 21:21
Netöryggi
Ég er áhugamaður um netöryggi og þessvegna neita ég að skrá mig á facebook. En það er margt fleira að varast á netinu. Það mikilvægasta er náttúrulega að þekkja mögulegar hættur til að geta varast þær. Þjófnaður á persónu upplýsingum er það sem allir þurfa samt að varast mest. Þar á ég sérstaklega við þjófnað á viðkvæmum lykilorðum. En eitt er að vita og annað að gera. Það sem allir nota á netinu eru vafrar. Og þeir eru misöruggir. Firefox hefur löngum verið talinn öruggastur en Internet Explorer hefur að undanförnu einnig tekið miklum breytingum til batnaðar varðandi örugga netnotkun eða private browsing. Google Chrome ætti svo enginn að nota í dag né nokkur önnur forrit frá Google. Leitarvélina, póstinn né samfélagsvefinn. Google er mesta ógn við persónufrelsi einstaklinga ef frá eru skildar hinar ýmsu leyniþjónustur sem allar hafa það hlutverk að skrá persónuupplýsingar og nethegðun þeirra sem nota Internetið. En það eru fleiri en Facebook, Google og netveiturnar sem eru að njósna. Fyrirtæki sem hanna og setja upp vefi fyrir einstaklinga og fyrirtæki setja undantekningarlaust inn í kerfin allskonar kóda til að fylgjast með hegðun þeirra sem heimsækja þessar síður. Og jafnvel oft án heimildar. Þetta gera þeir í krafti þess að oftast eru þessir aðilar þeir sem þjónusta líka viðkomandi vefi og hafa því aðgang að öllum þessum upplýsingum án vitneskju eigandans og geta gert það sem þau vilja með þær. Ég er til dæmis ekkert endilega viss um að Eiríkur Jónsson hafi beðið um að settur væri upp búnaður frá Statcounter.com á nýja vefinn, sem hann var að hleypa í loftið í dag. Það var reyndar fyrir algjöra tilviljun sem ég tók eftir að þessi njósnakódi væri á vefnum hans.
Takið eftir merkinu í vinstra horni efst. Þar birtust óvart skilaboð um að forritarinn hafi gert villu við innsetningu á þessum tracking code. En eins og lesa má í umsögnum á heimasíðu statcounter.com þá er hægt að kortleggja hvaðan heimsækjandi kemur, hvað hann gerir og hvert hann fer. Og síðast en ekki síst er hægt að sjá IP tölu notandans og þar með nánast hver viðkomandi er. Þetta er brot á friðhelgi einkalífsins í mínum huga. Ef verið er að skrá um mann upplýsingar þá er lágmark að láta fólk vita og afla til þess samþykkis. Það er hvergi gert í dag. Öll þessi ólöglega söfnun persónuupplýsinga fer fram undir leynd og í skjóli fáfræði netnotenda flestra.
En það er hægt að verjast:- Í fyrsta lagi eiga menn að nota það sem kallast Private Browsing . Það er hægt að gera í Firefox undir Tools, eða með flýtilyklinum control+shift+p.
- Í öðru lagi eiga menn aldrei að nota kortin sín eða sinna heimabankanum nema í gegnum "Live stýrikerfi" en með því á ég við stýrikerfi sem styðst ekki við notkun á hörðum diski og skilur þar með engar upplýsingar eftir sig um notkunina. Live stýrikerfi er keyrt upp af cd eða dvd-diski eða minnislykli og er til í mörgum útgáfum í linux stýrikerfinu. Ég nota Knoppix og hef gert lengi. Knoppix er hægt að ná í af vef háskólans.
- Í þriðja lagi þarf að varast síður sem settar eru upp til að safna lykilorðum. Þessar síður eru alveg eins og hinar nema að þær eru bara frontar. Besta ráðið er því að nota https, alltaf þegar þess er kostur
- Og í fjórða lagi þá eiga menn ekki að leyfa scripts á vefsíðum aðgang að harða diskinum. Þótt menn noti ekki live stýrikerfi. Þessu er hægt að stjórna með viðbót fyrir Firefox sem kallast noscript. Eins má brýna fyrir fólki að fylgja ekki hlekkjum í hugsunarleysi. það er oftast meira öryggi fólgið í því að hægri smella á slíka live links og velja "opna í nýjum glugga" heldur en klikka beint. Með hugsunarleysi erum við að teikna upp á korti hvað við gerum á netinu. Það er svipað og auglýsa á facebók að maður verði ekki heima næstu helgi og því sé allt í lagi að brjótast inn.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:33 | Facebook
Athugasemdir
þar sem þú varar við öllum forritum frá Google þá vekur það athygli mína að þú sjálfur ert með netfang frá Google ( þ.e. gmail).
Sigrún Óskars, 11.3.2012 kl. 23:03
:) Já ég veit Sigrún. Stendur til að breyta því. Enda ekki fyrr en nýlega sem Google upplýsti um samnýtingu persónuupplýsinga og einhliða rétt þeirra til að nota þær upplýsingar.
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 11.3.2012 kl. 23:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.