27.3.2012 | 06:48
Bændasamtökin álykta gegn sjálfu sér
Með því að leggjast gegn samþykkt á breytingum búvöru og tollalaga eru Bændasamtökin að stuðla beint að því að fleiri snúist á sveif með aðild að ESB en ella hefði verið. Fólk kýs alltaf með fjárhagslegum hagsmunum sínum. Og það er þrennt sem mun skipta sköpum ef þessir aðildarsamningar verða einhvern tíma bornir undir þjóðina. Og það eru gengi krónunnar, vextirnir og verðbæturnar og matarverðið. Stjórnmálamennirnir hafa tvennt í hendi sér og Bændasamtökin hið þriðja. Með því að leggjast gegn tollalækkunum og innflutningi eru Bændasamtökin á rangri leið. Og það eru engin rök í málinu hjá þeim að benda á að íslenskir bændur hafi leitast við að auka hagkvæmni framleiðslu sinnar um árabil þannig að í sumum búgreinum sé jafnvel aðeins einn framleiðandi eða einn dreifingaraðili á tilteknum vörum. Ef framleiðslurétturinn hefur færst á eina hendi þá er ekki um virka verðmyndun á markaði að ræða. Þá er hér komin einokun sem nauðsynlegt er að brjóta upp með öllum ráðum. Ég styð bændur og kaupi íslenskt en ég held að landbúnaðarstefnan sé röng. Bændur eiga sjálfir að vinna að því að gera landbúnaðinn samkeppnishæfan við búvöruverð á meginlandi Evrópu til þess að sporna gegn þeim röddum sem gefist hafa upp á íslenskum stjórnmálamönnum og íslenskum landbúnaði.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 06:59 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.