29.3.2012 | 14:41
Dagur Framsóknar
Þingflokkur Framsóknarmanna hefur lagt fram frumvarp til laga um þak á hækkun verðtryggingar og lækkun vaxta. Frumvarpinu verður dreift á Alþingi í dag. Markmið frumvarpsins er að draga úr vægi verðtryggingar í íslensku efnahagslífi, minnka vaxtakostnað og skuldsetningu heimilanna og tryggja að ábyrgðin af baráttunni við verðbólguna hvíli ekki aðeins á herðum neytenda í samfélaginu.
Ég verð að hrósa framsóknarmönnum fyrir þetta frumkvæði. En ekki síst vil ég hrósa Vigdísi Hauksdóttur fyrir að hafa tekizt að pirra hálfan þingheim nú þegar og þinghald ekki einu sinni hafið! Meira að segja húmoristinn, Björn Valur Gíslason gat ekki leynt gremju sinni þegar Vigdís hraunaði yfir samþingsmenn sína af mikilli list. Hingað til hef ég ekki haft mikið álit á þessum þingmanni. Fundist hún fúllynd og leiðinleg eins og Jón Gunnarsson. En það verður að segja henni til hróss að hún hefur vaxið sem ræðumaður, jafnhliða því að hafa látið af reiðinni og fúllyndinu. Engu líkara en hún hafi farið í smiðju til erkióvinarins, Össurar Skarphéðinssonar og tekið upp hæðni, sem greinilega svíður meira undan ef mark má taka af andsvörunum sem hún fær. Well done Vigdís!
Vilja þak á hækkun verðtryggingar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:43 | Facebook
Athugasemdir
Margir vilja reyndar meina að nú þegar séu í gildi lög um þak á verðtryggingu.
Frá árinu 2000 hafa nefninlega lög um neytendalán gilt um húsnæðislán og þau kveða á um að lántökukostnaður skuli vera fyrirsjáanlegur. Það getur hann ekki án hámarks. Það sem meira er, í lögunum stendur að ef lánsfjárhæð sé ekki tilgreind (sem hún er aldrei fyrirfram á verðtryggðum lánum) skuli hún að hámarki vera 150.000 krónur. Svo má hver leggja þann skilning í þetta sem vill. Svo er í þeim lögum önnur grein sem kveður á um að miða skuli við óbreytt verðlag, sem má jafnvel skilja sem svo að ekki beita verðlagsbreytingu á lánsféð. En aftur þá verður hver að leggja skilning í það sem vill.
Ef Framsóknarmennirnir eru að leggja til hærra þak á verðtryggingu en 150.000 krónur, afhverju leggja þeir þá ekki frekar til auknar fjárveitingar til neytendamála (sem eru í miklu fjársvelti hjá hinu opinbera) til þess að hægt sé að framfylgja þegar gildandi lögum?
Þegar ekki er farið að lögum þá lagast það ekki þó lögunum sé breytt. Vandamálið liggur hjá framkvæmdavaldinu en ekki löggjafanum.
Það merkilega er að margir af þeim sem nú tilheyra framkvæmdavaldinu voru í hópi þeirra sem skrifuðu og samþykktu þau lög sem er verið að brjóta allt um kring.
Guðmundur Ásgeirsson, 30.3.2012 kl. 02:24
Guðmundur, ég hef ekki nennt að setja mig inní þessi mál varðandi verðtrygginguna. Mér finnst oftast að einföldum hlutum sé drekkt í kjaftæði. Í fyrsta lagi þá er samsetning vísitölunnar vitlaus. í öðru lagi þá gengur ekki að verðtryggja lánin en ekki launin og í þriðja lagi þá eru aðferðafræðin sem notuð er við útreikninga á afborgunum verðtryggðra lána ósiðleg og ólögleg. það getur ekki staðist að leggja alltaf hluta verðbótanna við höfuðstólinn og reikna síðan verðbætur á verðbætur og vexti á vaxtavexti í það óendanlega. Ef bara verðbætur væru reiknaðar á afborganir og vexti en ekki allan höfuðstólinn þá væri hægt að lifa með þessum lánum en fjármálafyrirtækin komust upp með að reikna verðtryggð lán samkvæmt sínum skilningi og þess vegna erum við í þessum vanda. Svo vil ég líka minna á að hingað til hefur ekki tíðkast að efast um úrskurði ráðherra eða stofnana sem heyra undir ríkið. Það var til dæmis farið illa með mig af skattayfirvöldum og fjármálaráðuneytinu en mér datt ekki í hug að ég gæti leitað réttar míns. Í dag væri það raunhæfur möguleiki.
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 30.3.2012 kl. 23:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.