Pírataflokkurinn - The Pirate Bay

Ekki veit ég til þess að nokkur tenging sé á milli fyrirhugaðrar stofnunar Pírataflokks Birgittu Jónsdóttur annars vegar og sjóræningjasíðunnar sænsku, The Pirate Bay, hins vegar.  Samt sér RUV, fjölmiðill þjóðarinnar ástæðu til að tengja þetta tvennt saman á mjög afgerandi hátt með því að birta logo Pirate Bay síðunnar með fréttinni um stofnun Pírataflokksins.  Þetta er ábyggilega gert af ráðnum hug og er til þess fallið að kasta rýrð á þetta stjórnmálaafl sem nú er í burðarliðnum.  Sannast hér sem áður að ríkisfjölmiðillinn undir stjórn Páls Magnússonar, er trúr húsbændum sínum í fjórflokknum og ver stöðu þeirra hvenær sem á þarf að halda.

En ég trúi því að Pírataflokkurinn geti orðið það afl sem Besta Flokknum var ætlað en mistókst að verða. Pírataflokkurinn er greinilega anarkistaflokkur í grunninn, þótt ekki sé því flaggað af eðlilegum ástæðum. Píratar munu ekki berjast fyrir ólöglegu niðurhali þótt Páll Magnússon og Óðinn Jónsson reyni að troða þeirri lygi inn í huga landsmanna á myndrænan hátt.  Píratar munu berjast fyrir auknu frelsi á öllum sviðum, meiri þátttöku almennings í beinum ákvörðunum, valddreifingu, ásamt með miklu betra eftirliti með stjórnvöldum og ríkisstofnunum. Pírataflokkinn á að taka alvarlega og þeir sem nú eru tvístígandi og vita ekki hvaða stjórnmálaafl þeir geti stutt munu örugglega finna einhvern samhljóm sem vert er að kanna nánar þegar flokkurinn hefur verið formlega stofnaður og stefnumál kynnt.  Hvort fara þarf fram á rannsókn á ólöglegri notkun RUV á logoi The Pirate bay, skal ósagt látið.  En ég geri þá kröfu til þessa fjölmiðils, að hann gæti þó ekki væri annars, en meðalhófs í fordómum, í framsetningu frétta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband