26.11.2012 | 20:06
Kallaði keppanda belju!
Þátturinn Dans dans dans, sem sýndur var í SAS (sjónvarpi allra starfsmanna) síðastliðið laugardagskvöld, vakti athygli mína fyrir tvennt. Í fyrsta lagi hin misheppnaða innkoma gestadómarans og svo hin hneykslanlega framkoma Gunnars Helgasonar gagnvart einu dansparinu. Fordómar Gunna leyndu sér ekki því hann fór mörgum orðum um fáránleikann í því að draga hingað spænskan karlkynsdansara og búa til nautabanaatriði þar sem hinn íslenski kvenkynsdansari var í hlutverki nautsins eða með orðum Gunna sjálfs "íslenska beljan sigraði spænska nautabanann"
Fleira hefur farið í taugarnar á mér varðandi þessa þætti. Í fyrsta lagi er um greinilega eftiröpun á bandarísku sjónvarpsseríunni So You Think You Can Danse, að ræða, þótt þess sé hvergi getið. Gaman væri að fá svör frá hinum nýja dagskrárstjóra SAS, hve há upphæð er greidd fyrir að fá að gera þessa eftirlíkingu. Síðan er það hlutur kynnisins, Ragnhildar Steinunnar, sem greinilega telur sig bæði aðalsprautu og kynni. Þetta er ekki svona í orginal þættinum, þar sem Cat Deeley er bara host eða kynnir en aðalmaðurinn er að sjálfsögðu hugmyndasmiðurinn og skipuleggjandinn Nigel Lythgoe. Ragnhildur Steinunn er ekki sjónvarpsvæn frá sjónarhóli heyrnarskertra. Til þess er hún allt of skrækróma og óðamála. Kannski að raddþjálfun gæti lagað þetta, en fyrir okkur sem erum lögheyrnarlausir, er rödd dagskrárgerðamanna það sem allt snýst um. Forsvarsmenn mættu gjarnan taka það til greina. Heyrnatæki kosta hundruð þúsunda og það eru ekki allir heyrnarlausir Alþingismenn og ekki heldur allir Alþingismenn heyrnarlausir.
Síðast en ekki síst þá fara þessi auglýsingarhlé sem tröllríða öllum þáttum á SAS, óskaplega í taugarnar á mér. Oftast skipti ég bara yfir á DR1 og það er eins og að horfa á íslenskt sjónvarp! Sömu framhaldsþættirnir, sömu matreiðsluþættirnir og sama fræðsluefnið. Bara miklu nýrra efni og allt án auglýsinga. Auglýsingar eru nefnilega ekki auglýsingar. Í dag eru auglýsingar ekkert annað en andlegar pyntingar fyrir þá sem óska ekki eftir að horfa á þær
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:04 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.