17.1.2013 | 01:58
Stjórnin mun ekki leggja fram stjórnarskrárfrumvarpið
Það var þjóðin sem vildi nýja stjórnarskrá. Ekki Jóhanna og alls ekki Steingrímur
Í stjórnarsáttmálanum er aðeins minnst á endurskoðun á lögum um þjóðaratkvæðagreiðslur og persónukjör. Annað er þar ekki að finna um breytingar sem falla undir stjórnskipunina. Breytingarnar á ráðuneytunum falla undir stjórnsýslubreytingar og þarfnast engra stoða umfram það sem þegar er kveðið á um í stjórnarskrá lýðveldisins frá 1944. Hins vegar þurfti að gera breytingar á stjórnarskránni til að heimila fullveldisframsalið ef áform aðildarsinna hefðu ræzt. Núna hefur þeim áformum verið frestað og ekkert lengur sem knýr á um samþykkt stjórnlagafrumvarpsins.
Annað sem styður þessa kenningu eru hörð viðbrögð elítunnar og forsetans gegn nýju stjórnarskránni. Þar er afl sem Jóhanna kærir sig ekki um að fara gegn nú þegar hún er að hætta afskiptum af pólitík. Því þótt stjórnin gæti hugsanlega náð því að afgreiða frumvarpið þá myndu andstæðingar þess ekki gefast upp heldur safna undirskriftum og knýja málið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þeirri kröfu gæti forsetinn ekki hafnað og þar sem stjórnin gæti ekki tekið sénsinn á að lögin yrðu felld þá myndu þau draga það til baka. Þetta er búið að teikna upp og þess vegna verða engar breytingar gerðar á stjórnarskránni. Það er kalt mat. Enda kannski bezt. Það eru breytingar á kvótakerfinu sem mestu máli skipta í dag. Nú þegar ESB umsóknin og stjórnarskrármálið er tapað þá neyðist stjórnin til að standa við fyrirheit um innköllun aflaheimilda og raunverulega kerfisbreytingu á fiskveiðistjórnuninni. Annað er óhugsandi. Annars verður hennar minnst sem þeirrar stjórnar sem lofaði mestu og sveik mest.
Flokkur: Stjórnarskrármálið | Breytt 9.2.2013 kl. 17:19 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.