Loðnumælingarfúskið

Þetta má lesa á Ruv.is:

 Aðeins mældust um 320 þúsund tonn af kynþroska loðnu í leiðangri Hafrannsóknastofnunarinnar eftir áramót. Þetta er langt undir væntingum.

Mælingar á skipinu Árna Friðrikssyni hófust djúpt norður af Langanesi og náðu til norðurs og vesturs, allt vestur fyrir 27. lengdargráðu í Grænlandssundi. Einnig var leitað úti fyrir Austfjörðum. Loðna fannst á öllu svæðinu en var víða mjög dreifð, samkvæmt upplýsingum frá Hafrannsóknastofnuninni. Austast og allt vestur að svæðinu norðan við Grímsey var nánast eingöngu hrygningarloðna en þaðan og vestur um var loðnan blönduð við ókynþroska loðnu. Útbreiðsla og dreifing loðnunnar reyndist vera óvenjuleg.

Kranablaðamennskan svíkur ekki frekar en fyrri daginn í fréttaflutningi af loðnumælingum Hafró.  Enginn spyr af hverju kvótinn sé ekki umsvifalaust skorinn niður fyrst svo lítið af loðnu finnst á öllu þessu svæði!  Og hvað segir forritið þeirra um þessa skekkju? Skekkja upp á 350 þúsund tonn er varla innan vikmarka eða hvað?  Og hafa þessir menn sem starfa við að rannsaka hafið enga skýringu á þessari óvenjulegu dreifingu?  Eða datt bara fréttamanninum sem tók við tilkynningunni ekki í hug að spyrja? 

Það er ekki nema von að fiskveiðiráðgjöfin sé eins og hún er fyrst engin vitræn umfjöllun er um  þessi vísindi Hafró.  Hér áður var fylgst vel með fréttum af öllu sem viðkom þessum undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar.  Þá vissu sjómenn meira en fiskifræðingar um göngur fiska og ástand stofna. En nú eru fræðingarnir búnir með aðstoð kranablaðamanna að afvegaleiða svo umræðuna að enginn hrekkur einu sinni við þótt 50 þúsund tonn af síld drepist úr súrefnisskorti eða þótt 5 þúsund tonnum af lúðu sé hent í sjóinn að landað fram hjá vigt.  Og þótt vanti 350 þúsund tonn af hrygningarloðnu þá ýta menn bara á enter og byrja á næstu fréttatilkynningu.

Af hverju dettur kranablaðamönnum ekki í hug að tala við sjómenn?  Er LíÚ búið að heilaþvo allt helvítis liðið á þessum 4. flokks fjölmiðlum?  Er dagskipun fréttastjórans að taka bara við fréttatilkynningum frá Hafró og spyrja einskis!

Segjum sem svo að þessi mæling sé marktæk þá vaknar sú spurning hvert fór þessi loðna?  Synti hún norður eða voru það flottrollsskipin sem splundruðu torfunum áður en hafrannsóknarskipin náðu að mæla?  Og hvaða áhrif hefur það á göngumynstur loðnunnar þegar hún splundrast svona í upphafi vertíðar.  Stofnun sem þykist vita hversu margir fiskar af hverri tegund syndir hér í okkar lögsögu skuldar skýringar.  Og við almenningur eigum rétt á að í það minnsta ríkisfjölmiðillinn spyrji gagnrýninna spurninga í þetta skiptið.

Eru aðferðir Hafró fúsk eða vísindi?

lagnet.jpg


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband