Tökum þessi 10 prósent og semjum svo...

Það er staðreynd að nær ómögulegt er að mæla stofnstærð makríls með bergmálsmælingum. Tölur sem Norðmenn og ESB nota við ákvörðun kvóta byggjast því á ágiskun og markaðsaðstæðum.  Alveg eins og veiðiráðgjöf LÍÚ tekur mið af verðmæti leifðs afla óháð ástandi stofna.  Þetta þarf að hafa í huga. 

Við Íslendingar erum vissulega í nokkrum vanda vegna þessarar makríldeilu.  Ekki vegna veiðanna heldur vegna sölu fyrirhugaðs afla. ESB hefur hótað viðskiptahindrunum og það ber að taka alvarlega.

Yfirlýsingar Einars K. Guðfinnssonar um einhliða ákvörðun kvóta eru því vægast sagt skrumkenndar eða beinlínis ábyrgðarlausar af manni sem teljast verður líklegur arftaki Steingríms í embætti sjávarútvegsráðherra.

Mér finnst ekki boðlegt af stjórnmálamönnum að nota svo mikilvægt hagsmunamál í pólitískum flokksátökum.  Steingrími og ríkisstjórninni er vandi á höndum. Og þótt sá vandi sé að mestu heimatilbúinn þá er hann til staðar.  Það er of seint að vinna nýja markaði. Við erum háðir innri markaði ESB og út frá því verður að vinna og er verið að vinna.

Ég hef áður viðrað þá skoðun að við ættum að mynda utanríkis og viðskiptasamband með Færeyingum og Grænlendingum til að tryggja hagsmuni þessara eyríkja í Norður Atlantshafi.  Að það hafi ekki verið gert stafar af hroka Íslendinga  sem hafa löngum litið niður á þessar fámennu nágrannaþjóðir. Hvorki Færeyingar né Grænlendingar telja hagsmunum sínum best borgið með aðild að ESB. Eru þeirra hagsmunir ekki þeir sömu og okkar?  ESB mun gleypa okkur ef við göngum þar inn.  það er bara staðreynd sem við verðum að horfast í augu við.  Bandalag Íslands Grænlands og Færeyja gæti hins vegar markað tímamót í því hvernig stórríkin koma fram við smáþjóðir.

Þessar 3 þjóðir eru fyrst og fremst veiðimanna samfélög sem lifa á nýtingu náttúrunnar. Umhverfis og auðlindastefna ESB tekur ekki tillit þessara hefða. ESB bannar selveiðar og hvalveiðar og hefur sýnt mikið ofríki gagnvart fiskveiðum allra þessara 3 smáþjóða.  Við eigum að koma fram sem einn aðili með eitt sameiginlegt samningsumboð og krefjast réttar okkar í makrílveiðunum. Grænlendingar eiga sama rétt og við og á þeim rétti braut Steingrímur skammarlega síðasta sumar. Þá var Steingrímur ekki að gæta hagsmuna okkar. Við eigum nefnilega ekki að höfða til veiðireynslu heldur útbreiðslu. Og makrílinn sem gengur í lögsögu Grænlendinga eiga þeir að fá að veiða alveg eins og við gerum tilkall til að veiða ákveðið hlutfall af þeim makríl sem hingað kemur.

Ofbeitina verður að stöðva. Það eru stærstu og veigamestu rökin. Makríllinn kemur hingað í ætisleit og við eigum  að hafa forgöngu um að lögleiða frjálsar strandveiðar.  Það væri gott fyrsta skref. Hingað til hefur útgerðum verksmiðjuskipanna sem vinna aflann um borð verið afhentur þessi viðbótarkvóti endurgjaldslaust. Þær veiðar hafa ekki gagnast þjóðarbúinu sem slíku í formi fleiri starfa og meiri virðisauka. Ef við leyfðum frjálsar veiðar smábáta utan kvóta, og höfðuðum til frumbyggjaréttarins gæti það styrkt stöðu okkar í þessum deilum við Norðmenn og Evrópusambandið.

Við eigum sem sagt að hafa samráð við Færeyinga og Grænlendinga og tilkynna viðsemjendum okkar að við þessar 3 þjóðir áskiljum okkur frjálsa sókn smárra báta innan 12-20 mílna lögsögu en lýsum okkur tilbúna til að semja um úthafsveiðar á 20% af þeim makríl sem áætlað er að dvelji innan fiskveiðilögsögu þessara þriggja Norður-Atlantshafsríkja á hverju sumri.  Setja má ákvæði um að veiðar megi ekki byrja fyrr en að áliðnu sumri og einnig gætum við takmarkað veiðar við fullvinnslu til manneldis. 

Samherji og Grandi og aðrar alþjóðlegar rányrkju útgerðir eiga engan rétt á stuðningi íslenskra stjórnvalda.  Þær útgerðir geta bara keypt sinn kvóta af ESB ef þær vilja veiða. Okkar sterkustu rök eru frumbyggjarétturinn. Á þeim rétti eiga stjórnvöld að byggja afnám allrar kvótastýringar á fiskveiðum og hafa forgöngu um ábyrga nýtingu í stað þeirrar rányrkju sem stórútgerðirnar stunda í skjóli vottunar svika.


mbl.is Skammta sér einhliða 90% kvótans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband