23.4.2013 | 07:25
Spillt Samkeppniseftirlit.
Ef Samkeppniseftirlitið og Framsóknarörverpið sem situr þar, sem forstjóri í pólitísku umboði fjórflokksins, starfa eftir lögum, þá þarf greinilega að skerpa á þeirri lagasetningu. Eða ganga í ESB og taka upp alvöru lagasetningu og alvöru eftirlit. Þetta eru þung orð en nýjustu úrskurðir þessa sýndar-Samkeppniseftirlits kalla á extreme viðbrögð. Eða hvar í siðuðu ríki myndi það vera látið viðgangast að 7 fjölskyldur geti í skjóli pólitískrar spillingar , sölsað undir sig 90 % af stærstu auðlind þjóðar án þess að greiða sanngjarnt verð fyrir? Og núna á að bæta um betur og afhenda aðalkvótagreifanum, Þorsteini Má í Samherja, 20% af botnfiskkvóta Vestmannaeyja í gegnum kaup á fyrirtækinu Bergi-Huginn! Þetta er svo mikið svínarí að það nær ekki nokkurri átt að þetta geti gerst eftir alla umræðuna um kvótakerfið og framsalið á liðnum árum. Það er bara verið að sýna okkur fingurinn og núna með aðstoð spillts eftirlitskerfis sem kallar sig öfugnefninu Samkeppniseftirlit!.
Hér er engin samkeppni á neinum sviðum og pólitísk inngrip í bankakerfið og stjórn lífeyrissjóðanna handstýra því hvaða fyrirtæki fá að lifa og hver eru sett í þrot.
Svo höfum við ríkisstýrðan landbúnað og einkavædda útgerð einkavina. Þetta gerist ekki spilltara í vanþróaðasta ríki í Afríku!
Og ef þetta væri nú ekki nóg þá bítur fyrirkomulag gjaldeyrisviðskipta höfuðið af skömminni með því að leyfa Seðlabankanum að vera með sýndarmarkað til að geta falsað rangt gengi á krónunni til að handstýra hér vísitöluhækkunum og þar með verðbólgu. Allt í nafni pólitískrar loddaramennsku til að friða eftirlitið í Brussel.
Þetta gengur ekki svona lengur. Annað hvort göngum við í ESB eða við segjum okkur úr EES. Og annaðhvort höfum við gengið fast í höftum eða við tökum upp annan gjaldmiðil. Og annaðhvort ríkir hér fákeppni án afskipta pólitíkusa eða samkeppni. Og ef við viðurkennum fámennið og fákeppnina þá skiptum við um nafn á Samkeppnisstofnun og köllum hana Fákeppnisstofnun og fáum alvöru forstjóra til að stýra þeirri stofnun.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:27 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.