26.5.2013 | 15:47
Við eigum að hugsa smátt en ekki stórt
Ný ríkisstjórn kallar eftir samráði og samvinnu. Kristján Þór Júlíusson, nýr heilbrigðisráðherra segir í viðtali við Vikudag á Akureyri, " Besta leiðin til að ná árangri er að efna til víðtæks samráðs við þjóðina og ég er sannfærður um að það ætlunarverk okkar tekst. sjá hér
Nú veit ég ekki hvernig nýr heilbrigðisráðherra sér þetta fyrir sér. En hræddur er ég um, að þetta boði engar þær breytingar, sem nauðsynlegt er að gera á þessu miðstýrða heilbrigðiskerfi, sem sett var á stofn við sameiningu Landspítalans og Sjúkrahúss Reykjavíkur árið 2000. Þessi sameining og miðstýring var kerfisvilla, sem búin er að eyðileggja heilbrigðiskerfið í dag.
Við þurfum ekki samráð um sömu vitlausu stefnuna. Við þurfum að sameinast um nýja stefnu, sem tekur mið af stærð og getu þjóðfélagsins varðandi kostnað. Og kjarninn í þeirri stefnu verði, að veita þjónustuna þar sem sjúklingurinn er. Þetta þýðir að við byggjum hér upp fyrsta flokks heilsugæslur og héraðslæknisþjónustur en hættum við öll áform um að reisa hér hátæknisjúkrahús. Þessi frasi um að hér þurfi að veita hátæknilæknisþjónustu sem jafnist á við það besta í nágrannalöndunum er dæmi um veruleikafirringu stjórnmálamannanna sem létu báknið vaxa okkur yfir höfuð. Og við eigum að taka aftur upp nætur og helgidagavakt lækna, þar sem fólk getur hringt og fengið heimsókn læknis, en þarf ekki að sitja á yfirfullum biðstofum slysa og bráðadeildanna. Og úti á landi verði komið á fót héraðslæknisembættum þar sem læknirinn fari til sjúklinganna en sjúklingarnir ekki til læknisins. Svona þjónustu fær búsmalinn og hefur fengið í áratugi og hversvegna ekki mannfólkið?
Nú er tækifæri fyrir nýjan ráðherra að minnka báknið. Og þetta er hægt að gera án þess að skerða þjónustuna og án þess að einkavæða kerfið eins og svo margir óttast. Í stað þess að byggja hér upp allar þessar sérhæfðu deildir á miðlægum Landspítala þá gerum við þjónustusamninga við það sjúkrahús á Norðurlöndum, sem liggur greiðast við, með tilliti til samgangna. Því nálægðin skiptir hér mestu. Og sá tími sem tekur að koma sjúklingi undir læknishendur. Því það er enginn munur í raun fyrir sjúkling sem þarf að flytja landshorna á milli hvort hann fær þjónustuna í Reykjavík eða til dæmis í Stokkhólmi eða Osló eða Kaupmannahöfn. En kostnaðurinn sem lendir á skattborgurum yrði margfalt minni og þjónustan margfalt betri.
Menn verða að fara að horfast í augu við að sökum fámennis þá getur ekki allt orðið hér eins og best þekkist annars staðar. Hvorki heilbrigðiskerfið né menntakerfið sem eru okkar dýrustu útgjaldaliðir. Með því að halda uppi ósjálfbærum ríkisbúskap erum við að skerða möguleika framtíðarkynslóða til að lifa mannsæmandi lífi. Það er ekki nóg að skila hallalausum fjárlögum þegar framtíðarskuldbindingar eru að sliga okkur.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:50 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.