27.5.2013 | 15:02
Afturkræfar ákvarðanir
Hugmyndir stjórnmálamanna um sameiningu sjúkrahúsa hafa ekki gengið upp. 13 árum eftir "sameiningu" Landspítalans og Sjúkrahúss Reykjavíkur, stöndum við nánast í sömu sporum. En á þessum tíma, sem liðið hefur, hafa samt miklar skemmdir verið unnar, bæði á húsakosti, sem ekki hefur notið eðlilegs viðhalds, en ekki síst skemmdir af mannavöldum, sem lýsa sér í lokun sérhæfðra þjónustueininga eins og Landakots og St.Jósefs spítalans í Hafnarfirði. Og það hefur aldrei verið spurt að því hvort þjónustan við sjúklinga hafi batnað eða versnað. Þeir sem hafa ráðið, láta ekki slík aukaatriði þvælast fyrir tálsýninni um stórt Hátæknisjúkrahús. Tálsýn, sem enginn grundvöllur er fyrir að reisa og hefur aldrei verið. Af þeirri einföldu ástæðu að við erum of fámenn.
Þótt öllum sjúkrastofnunum verði lokað og allir sjúklingar sæki þjónustu til Landspítala-Háskólasjúkrahúss, þá mun fyrirhuguð bygging samt verða alltof stór.
Þetta er hinn augljósi sannleikur, sem leikmenn sjá, en sérfræðingar ekki. Hugmyndin um einn miðlægan spítala gengur ekki upp vegna fámennis. Það sem blasir við er, að öll áform um nýja Háskólasjúkrahúsið verði slegin út af borðinu í eitt skipti fyrir öll og sá kostnaður, sem þegar hefur fallið á þessa framkvæmd, verði afskrifaður. Það gengur ekki að halda áfram með heimskuleg áform vegna þess eins, að það sé búið að eyða svo miklu í undirbúning nú þegar. Það hefur ekkert verið gert, sem ekki er hægt að afturkalla. Allar þær ákvarðanir, sem hingað til hafa verið teknar, eru afturkræfar. Og það er skylda ábyrgra stjórnvalda, að afturkalla þessa ákvörðun, sem tekin var á síðasta þingi og fara síðan í stefnumótun um framtíðarlausn. Það eru örugglega margir sem munu geta lagt gott til málanna í þeirri vinnu. Og ég er ekki að tala um arkitekta, borgarfulltrúa eða alþingismenn!
Landspítalinn er falleg bygging. Þeirri byggingu ber að sýna sóma með því að halda henni við og leyfa henni að njóta sín. Fyrirhugaðar byggingar á landspítalareitnum svokallaða munu algerlega eyðileggja ásýnd gamla hússins. En það er hægt að byggja ofan á Borgarspítalann. Af hverju kanna menn ekki þann möguleika? Borgarspítalinn er miklu yngri bygging og miklu betur farin. Landspítalabyggingin hentar kannski ekki fyrir nútímalækningastofur en það er ekkert sem segir að byggingin geti ekki fengið nýtt hlutverk. Bendi á að þegar nýja sjúkrahúsið var byggt á Ísafirði, þá var gamla sjúkrahúsið gert að bókasafni og aldrei hefur þeim dottið í hug að þrengja að þeirri byggingu með þéttari byggð. þrátt fyrir augljósan skort á byggingarlandi og það er þeim til sóma.
Við gætum hæglega farið svipað að og Ísfirðingar. Fundið gamla Landspítalanum nýtt hlutverk og verndað þennan byggingarreit í stað þeirra skelfilegu áforma um risaframkvæmdir sem nú eru í bígerð. Það skemmdarverk yrði óafturkræft og á stærri skala en sjálf Kárahnjúkavirkjun. Hverjir munu vilja bera ábyrgð á því skipulagsslysi?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:30 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.