Ég býð mig fram til að aðstoða Sigurð Inga

Eins og allir vita er fiskveiðistjórnunin í hundslíki.  Eltir þar allt hvers annars skott.  Ráðgjöfin,  framkvæmdin og eftirlitið.  Afleiðingin er stórkostlegt tap þjóðarbúsins á öllum stigum virðisaukans, skattheimtunnar og síðast en ekki síst í brottkasti verðmæta.

Núna er komið í ljós að útfærsla hins sérstaka veiðigjalds gengur þvert á einkarétt manna.  Nauðsynleg gögn fást ekki afhent og allt er í uppnámi.  Þetta var fyrirséð.  Alla vega er ég búinn að vara við þessu allt frá því að frumvarpið var samþykkt.  Þessi hugmyndafræði um auðlindarentu einkaaðila gengur ekki upp vegna þess að í greininni starfa m.a. félög á hlutabréfamarkaði og að fela einhverri nefnd aðgang að öllum bókhaldsgögnum slíks fyrirtækis verður aldrei leyft af samkeppnisástæðum.  Ef útgerðin væri ríkisrekin þá er þetta hægt.  

Hættum strax þessari heimskulegu skattlagningu og segjum upp öllum verktakasamningum við Lúðvík Bergvinsson og Kristófer Má Daðason.  Þeir tveir bera mestu ábyrgð á þessu rugli fyrir utan náttúrulega Steingrím og Indriða.  Það sem á að gera er að selja veiddan fisk upp úr sjó.  Taka upp hráefnisgjald.  Slíkt gjald er eðlilegt að taki mið af markaðsgjaldi og greiðist við uppgjör fiskmarkaðar til útgerðar.  Alveg á sama hátt og virðisaukaskattur, sem fiskmarkaðir þurfa að standa skil á.  Einfalt, sanngjarnt og skilvirkt.  Engar bókhaldsbrellur eða íþyngjandi kvótaleiga.  Allir útgerðarmenn munu standa jafnfætis gagnvart hráefnisgjaldinu.  Og síðast en ekki síst þá væri það aðeins útgerðin sem bæri þennan kostnað.  Ekki vinnslan.

Þetta ásamt því að framsal og viðskipti með kvóta innan sömu útgerðar verði bönnuð dugar algerlega sem sátt í deilunni um kvótann. Aðgreinum veiðar og vinnslu, allan afla á markað og hættum svo að tala illa um útgerðarmenn.

Sigurður Ingi, ég skora á þig að gera rétt. Ég skal meira að segja hjálpa þér að útfæra þessar hugmyndir.  Þessi nýi aðstoðarmaður þinn er kannski ekki svo mikið inn í sjávarútvegsmálunum.  Þú þarft betri ráðgjöf.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband