Ekki ein gagnrýnin spurning

Í Speglinum á Rás1 var í kvöld viðtal við æðstaklerk trúarhreyfingarinnar "Al Hafró". Þar voru viðhöfð sömu lélegu vinnubrögðin og alltaf áður þegar RUV hefur fjallað um störf Hafró, að engra gagnrýninna spurninga var spurt og forstjórinn látinn komast upp með að halda fram tómri þvælu eins og því að friðun stækki stofna og það sé aflamarksreglunni að þakka að hér sé þeim merka árangri náð eftir 25 ára stýringu Hafró á veiði, að næsta ár megi veiða helming af því magni sem við veiddum þegar allt var í kaldakoli og kvótakerfinu var komið á.  Hvað ætla menn að trúa þessari þvælu lengi enn?  Við þurfum ekki annað en horfa til veiða Rússa og Norðmanna í Barentshafi til að skilja hversu arfavitlausar kenningar Hafró páfans eru.  Og ef Jóhann Sigurjónsson vill ekki breyta sínum aðferðum þá eiga stjórnvöld að láta hann taka pokann sinn. Hann hefur fengið allan þann tíma og 15 árum betur til að sanna kenningar sínar og árangurinn er enginn. 215 þúsund tonna afli úr milljón tonna stofni er enginn árangur.  Og ætla sér að byggja upp breiðan stofn þar sem allir árgangar eru jafn sterkir getur tekið heila öld. Það er komið nóg af þessari tilraunastarfsemi.  Okkur vantar meiri hagvöxt og aukinn afli er það sem skilar því hraðast og með mestum margfeldisáhrifum fyrir allt þjóðfélagið.  Stóriðjan gerir það hins vegar ekki.  Stóriðjan og virkjanir auka bara skuldir en það megum við sízt við. Við eigum hiklaust að fara að dæmi Norðmanna og Rússa og veiða meira. 350 þúsund tonna jafnstöðuafli af þorski eftir alla þessa friðun er hæfilegt.  Ef einhver efast má hinn sami skrifa sig á lista yfir þá sem vöruðu við.  En það er ástæðulaus ótti.  Og að þora er mikið atriði í því að losna við óttann sem fræðingarnir eru alltaf að koma inn hjá okkur. 

  • Óttann við að verða eins og Kúba Norðursins ef við borguðum ekki Icesave kröfu Breta og Hollendinga.
  • Óttann við að verðbólgan verði óviðráðanleg ef við afnemum verðtrygginguna og
  • óttann um þjóðargjaldþrot ef við göngum ekki í ESB og göngum ekki inn í sama myntsamstarf og Danir.
  • Og óttann um hrun fiskistofna ef við trúum ekki kenningum Hafró Páfans

Allt svona tal drepur niður bjartsýni á að hér sé yfirleitt búandi.  Við eigum ekki að trúa fræðingum gagnrýnislaust.  En til þess þurfa fréttamenn að vera starfi sínu vaxnir.  Það eru þeir ekki á fréttastofu Óðins Jónssonar nema með örfáum undantekningum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband