7.6.2013 | 16:41
Forsetinn og stjórnarskráin
Sumir hneykslast í hvert skipti sem Ólafur Ragnar opnar munninn. Við því er ekkert að gera. Aðrir leggja út af orðum hans á málefnalegan hátt og það er vel. Enginn getur mótmælt því að Ólafur Ragnar er sá forseti, sem lengst hefur gengið í því, að túlka stjórnarskrána eftir eigin höfði og þá í berhöggi við hefðbundnar flokkspólitískar línur. Þess vegna er það bæði eðlilegt og nauðsynlegt að fram fari gagnrýnin umræða um allt, sem Ólafur Ragnar segir um stjórnarskrána. En það er fráleit túlkun að segja að forsetinn hafi verið að gefa þinginu einhverjar skipanir um það hvernig stjórnarskránni þurfi að breyta. Meira kannski að ljóstra upp um óopinbert samkomulag við pólitízkan guðson sinn, sem nú gegnir forsætisráðherraembættinu
Rifjum upp söguna. Megininntak búsáhaldabyltingarinnar var krafan um nýja stjórnarskrá. Þess vegna var sett í gang vinna við að endurskoða hana. Um það ferli allt hafa margir tjáð sig og þar á meðal forsetinn. Seinna kom í ljós að áhugi stjórnvalda fyrir stjórnarskrárbreytingum byggðist á öðrum áherzlum og forsendum en áhugi almennings og þeirra fulltrúa sem falið var að vinna að breytingunum. Það eina sem stjórnvöld vildu var nýtt ákvæði, sem heimilaði ríkisstjórninni að afsala okkur fullveldi við fyrirhugaða innlimun í ESB og svo vildu þau líka ákvæði, sem takmarkaði völd forsetans. En stjórnlagaráð hafði aðrar hugmyndir en bæði þingið og hinar pólitízku valdastofnanir þjóðfélagsins og þess vegna náðu þeirra tillögur ekki fram að ganga. Ólafur Ragnar er að vonum ekki ósáttur með þá niðurstöðu, þar sem hann er eindreginn andstæðingur þess að við afsölum okkur fullveldi við inngöngu í ESB. Hann trúir sennilega á getu þingsins til að gera þær breytingar sem þarf. Kannski var það eitt af skilyrðunum, sem hann setti Sigmundi Davíð, fyrir því að fela honum stjórnarmyndunarumboðið? Það mun koma í ljós.
Þess vegna gerir hann stjórnarskrána að umtalsefni í þingsetningarávarpi sínu.
Eftir umrót liðinna ára er hin lýðræðislega stjórnskipun lýðveldisins á ný föst í sessi; vilji fólksins hreyfiafl þess sem gera skal en líka vísbending um varðveislu hins sem mestu skiptir. Alþingiskosningarnar skiluðu mikilvægum boðskap um stjórnarskrána og reyndar einnig skýrri niðurstöðu um framtíðarskipan fullveldisins. Afgerandi meirihluti hins nýkjörna þings er bundinn heiti um að Ísland verði utan Evrópusambandsins og málið fært í hendur þjóðarinnar.
Ef forsetinn á ekki að standa vörð um fullveldi þjóðar sinnar, þá hver?
Við skulum muna að ESB sinnar reyndu mikið, að fá sinn fulltrúa kjörinn í síðustu forseta-kosningum. Sá frambjóðandi hefði aldrei talað með þeim hætti um veruleikann sem fylgir aðild að ESB, sem Ólafur Ragnar hefur ítrekað gert. Er hann að hlutast til um stjórnmál? Já auðvitað er hann að því en er það eitthvað óeðlilegt? Hann hefur kosið að taka sér þau völd sem stjórnarskráin býður honum. Í þeirri stjórnarskrá er hann ígildi konungs og ef honum hugnast ekki að fela ráðherrum að framkvæma vald sitt þá geta þeir ekkert sagt við því. Sorry, en þetta er svona í stjórnarskránni. Forsetinn hefur þetta vald og framkvæmdavaldið er undir hann sett. Breytum því og hættum að níða forsetann. Byrjum ferlið upp á nýtt og gerum það rétt í þetta sinn.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:54 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.