7.6.2013 | 21:09
Spurningar til Jóhanns Sigurjónssonar
Nú hefur skýrsla Hafrannsóknarstofnunar verið til umfjöllunar í 2 daga hjá fréttamiðlum án þess að nokkrar athugasemdir séu gerðar við aðferðafræði Hafró páfanna. Fréttamenn gapa upp í fiskifræðingana og geta vart vatni haldið af aðdáun á þessum "árangri" sem náðst hefur. Þess vegna er ég með spurningar til Jóhanns Sigurjónssonar.
Þú sagðir í viðtali, að árangurinn í uppbyggingu þorskstofnsins væri eiginlega eingöngu þér að þakka og þeim róttæku friðunaraðgerðum sem þú hefðir beitt þér fyrir en gafst lítið fyrir að skilyrðin í sjónum hefðu spilað afgerandi rullu í stækkun þorskstofnsins. Einnig talaðir þú um að fiskurinn væri almennt stærri og þyngri. Í þriðja lagi talaðir þú um að undanfarin ár hefði ekki komið inn í stofninn stórt got eins og var algengt hér áður fyrr og gaf af sér toppa í veiði á árunum fyrir 1980.
Nú spyr ég:, Er ekki líklegt að þessi tiltölulega lélega nýliðun hafi eitthvað með að gera hve veiðistofninn er orðinn stór/gamall og þar afleiðandi matfrekur? Þekkt er að þorskurinn éti undan sér hvort sem hann er í svelti eða æti. Í öðru lagi, hvernig skýrir þú náttúrulegar sveiflur í stofnstærð sem þekktar voru fyrir daga kvótakerfisins? og í 3. lagi, Hvað ætlar Hafrannsóknarstofnunin að gera ef ástandið í sjónum breytist skyndilega til hins verra varðandi hitastig og fæðuframboð fyrir nytjastofna á Íslandsmiðum?
Allt skiptir þetta máli í sambandi við sjálfbæra nýtingu. Sjálfbær nýting er nefnilega ekki að koma á sjóeldi eins og þið eruð að gera. Sjálfbær nýting er að fylgja náttúrulegum sveiflum og koma í veg fyrir hvort heldur sem er hrun eða ofvöxt fiskistofna. Núna eru allar líkur á að stofnar séu orðnir of stórir vegna vanveiði undanfarin 5 ár og því mun sama sagan endurtaka sig og gerðist hér 2006-2007 að engin nýliðun varð vegna fæðuskorts og eldri árgangar horfalli eða éti undan sér. Þú manst væntanlega að þá varstu smeykur um hrun stofnsins og mæltir með algeru veiðistoppi. Það var eftir að þú varst búinn að byggja upp stofninn í 20 ár og þróa þetta fína tölvulíkan og búa til aflareglu og alles, en oops allt í einu fannstu bara engan fisk. Samt léstu skipin toga á sömu bleiðunum og þú klóraðir þér í hausnum og skildir hvorki upp né niður. En þú varst heppinn, þetta var á því ári þegar bankarnir möluðu gull í ríkiskassann og Geir Haarde yppti bara öxlum og sagði við Einar Guðfinnsson, sem þá var sjávarútvegsráðherra að þetta skipti engu máli. Þorskurinn væri hvort sem er að skila svo litlu. Var það nokkur furða þó hann skilaði litlu þegar ekki mátti einu sinni veiða hann þegar hann var sjálfur að drepast úr hungri! Samt var Einar líka landbúnaðarráðherra og hefði getað leitað ráða hjá einhverjum ráðunautunum. Þeir hefðu getað sagt honum að þegar heyfengur minnkar þá þurfa bændur að fella bústofninn. Hann hefði svo getað farið með þessa ráðleggingu til Jóhanns Sigurjónssonar og sagt honum að í staðinn fyrir að veiða minna þyrfti þvert á móti að veiða meira.
Þetta eru svona leikmannsþankar. En þeir eru jafnréttháir og villukenningar ykkar sem stjórnið Hafró. Þær eru ekki heldur byggðar á neinum vísindum. Stundum verðum við bara að láta skynsemina og reynsluna ráða.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:14 | Facebook
Athugasemdir
Og svona í tengslum við spurningarnar varðandi þorskinn, Gæti ekki sama gilt um ýsuna sem nú er lítið af? Gæti það ekki verið af völdum hins stóra þorskstofns? Ég man eftir úttroðnum þorskmögum af ýsuhrognum frá því ég stundaði sjómennsku fyrir vestan. Eins virðast bein tengsl milli þorsks og rækju. Stór þorskstofn þýðir lítill rækjustofn og öfugt. Um þetta var hægt að ræða við fiskifræðingana fyrir daga kvótakerfisins. En nú er hrokinn alger og fiskifræði sjómannsins ekki svaraverð. Reyndar er engin gagnrýni svaraverð lengur og RUV lætur nota sig í þögguninni. Hefur ekki borið sitt barr síðan Páll Benediktsson gerði hina umdeildu fréttaþætti fyrir RUV, þar sem öllu var snúið á haus í þágu kvótagreifanna.
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 7.6.2013 kl. 21:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.