10.7.2013 | 06:19
Stjórnarskrármálið ekki dautt
Öllum sem raunverulega kynntu sér vinnu stjórnlagaráðs árið 2011 og þá niðurstöðu sem út úr því starfi kom hljóta að vera ljósir þeir annmarkar sem voru á því starfi. Sú vinnutilhögun að skipta ráðsfulltrúum í 4 hópa sem síðan sömdu hver um sig afmarkaða kafla að mestu án aðkomu annarra fulltrúa leiddi til þess að lokaplaggið var ekki heildstætt. Enda hafa margir stjórnlagaráðsfulltrúar gagnrýnt plaggið á þeim tíma sem liðinn er frá því að vinnu lauk.
Vonandi hafa stjórnmálaflokkarnir vit á að skipa hæft fólk í þessa nefnd sem nú á að taka til starfa. En ég efast um það. Og ég veit hreinlega ekki hvernig best er að vinna að nauðsynlegum breytingum á meðan gamla stjórnarskráin er enn í gildi.
Margir benda á að sjálf stjórnskipunin sé gölluð og þess vegna þurfi að setja hér ný stjórnskipunarlög. En hverjir eiga að ákveða það hvernig sú stjórnskipun á að vera. Það hefur engin alvöru umræða farið fram um það. Það eru gallar á stjórnkerfinu sem má tengja beint við ófullkomna stjórnarskrá. Þar er helst að nefna hlutverk forsetans, kjördæmaskipunina og veika stöðu þingsins gagnvart framkvæmdavaldinu. Einnig má benda á óvandaða lagasetningu sem stangast iðulega á við önnur lög sem í gildi eru. Slíkt veikir völd kjörinna fulltrúa en eykur völd pólitískt skipaðra dómara.
Tækifærið til að stofna hér nýtt lýðveldi á rústum hrunsins rann okkur úr greipum og þar af leiðandi getum við alveg haldið áfram að staga í gömlu stjórnarskrána. En þær úrbætur verða að auka aðkomu almennings að ákvarðanatökunni. Fjórflokknum er ekki treystandi og forsetaembættinu er ekki treystandi. Valdið kemur frá fólkinu og fólkið þarf að taka það til sín aftur. Það er eiginlega það mikilvægasta sem þessi nýja stjórnarskrárnefnd þarf að taka til endurskoðunar.
Skipa nýja stjórnarskrárnefnd | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 06:21 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.