Hægri stjórnir, Hannes og RÚV

Mér eins og ýmsum fleirum, hnykkti við að hlusta á viðtal við Hannes Hólmstein í Speglinum á RÚV í fyrradag.  Án þess að ég sæi sérstaka ástæðu til að hneykslast eða rjúka til og blogga um tilefnið.  En nú hefur semsagt Hannes sjálfur gert hneykslun vinstri manna að tilefni til að hæðast að þeim á sinn hátt.  Fínt hjá Hannesi og mátulegt á þessa sjálfskipuðu umræðustjóra, sem láta eins og þeirra sé alnetið.

En..einmitt þetta tilefni, að Hannes fái að tjá sig í fréttum hinnar vinstri sinnuðu fréttastofu RÚV, sýnir svart á hvítu hversu nauðsynlegt það er, að ríkið hætti að reka fjölmiðil.  Með því að hleypa Hannesi aftur að og fá Gísla Martein sem arftaka Egils, þá er Páll Magnússon að rétta af vinstri slagsíðuna, sem núverandi stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar hafa gagnrýnt svo hispurslaust og með réttu undanfarna mánuði.

En á sama tíma gjaldfellir Páll  hlutleysi Ríkisútvarpsins og leggur andstæðingum þess vopn í hendur , sem vilja að RÚV sé skorið við trog.  Ég er í þeim hópi en ekki af pólitískum ástæðum.  Mér er alveg sama þótt Hannes Hólmsteinn og Stefán Ólafsson væru fengnir sem álitsgjafar um allt og ekkert. Fyrir mér hefur RÚV fyrir löngu glatað trausti sem hlutlægur fréttamiðill og orðinn að aggressivri íþróttarás, þar sem stefnan er að boltaíþróttir njóti forgangs. Þetta er ekki í samræmi við lögskipaða stefnu RÚV, sem segir að RÚV eigi að sinna menningu og efla innlenda dagskrárgerð.

Þess vegna finnst mér löngu tímabært, að ríkið dragi sig út af þessum markaði. Það eru einkastöðvar, sem sinna landsbyggðarhlutverkinu og stjórnmálaumfjölluninni alveg ágætlega og engin ástæða til að óttast einkareknu miðlana, að þeir breytist í Morgunblaðið. Það er greinilegt að þeir þingmenn sem töluðu mest um nauðsyn þess að hafa ríkisfjölmiðil sem sinnti einmitt þessu tvennu, hafa ekki kynnt sér hvað er í boði hjá N4 eða ÍNN.  Og það eru sífellt færri, sem nenna að setjast niður og horfa á fréttir og veður klukkan 19:00.  Til hvers segi ég nú bara. Maður er búinn að lesa þetta allt áður á netinu hvort sem er eða hlusta á sömu umfjöllun í Speglinum á Rás 1.  Hvað er þá eftir sem réttlætir 400 manna ríkisstofnun, sem kostar okkur skattborgarana 4 milljarða á ári?  Öryggishlutverkið?  Hvaða öryggishlutverki hefur RÚV sinnt, sem aðrir miðlar hafa ekki sinnt betur spyr ég á móti.  Hættum að blekkja okkur með þessari meðvirkni.  Ef stjórnendur RÚV geta ekki stjórnað  þessari stofnun í samræmi við vilja almennings þá eigum við ekkert að vera að halda þeim uppi. Það er rökrétt og orðið tímabært að endurskilgreina hlutverk RÚV.

En eitt er öruggt, að við þurfum ekki pólitískt apparat sem útvarpar á 2 rásum og sjónvarpar á 3.  Og heldur líka úti lélegum netmiðli. Ef menn geta komið sér saman um netta stofnun sem heldur utan um það sem best hefur verið gert þá er það ágætt.  Mér hefur dottið í hug að það væri kannski ekki svo galin hugmynd að sameina RÚV, Þjóðleikhúsið og Simfóníuna. Þar með yrði til stofnun sem væri öflugur menningarmiðill og möguleg efnisveita á því gífurlega mikla magni efnis sem nú rykfellur í geymslum Þjóðleikhússins og í hillum Ríkisútvarpsins.  Það væri meira að segja hægt að flytja starfsemi RÚV niður í Hörpu og selja húsið í Efstaleiti til að grynna á lífeyrisskuldbindingum vegna allra silkihúfanna. En gefum Páli og Óðni frí.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"En..einmitt þetta tilefni, að Hannes fái að tjá sig í fréttum hinnar vinstri sinnuðu fréttastofu RÚV, sýnir svart á hvítu hversu nauðsynlegt það er, að ríkið hætti að reka fjölmiðil." Heyr, heyr!

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 25.11.2013 kl. 12:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband