5.12.2013 | 22:03
Smjörið og mjólkurkvótinn
Að áliðnu hausti fóru að birtast í fjölmiðlum ítrekaðar fréttir af minnkandi smjörbirgðum í landinu. Fjölmiðlar virtust í gúrkutíð tíðindaleysis af skuldaniðurfellingu, taka þessari mötun hagsmunaaðila fagnandi og hófu gagnrýnislausa kranablaðamennsku í kjölfarið. Var ýmsum skýringum velt upp sem hugsanlegri ástæðu fyrir þessum meinta smjörskorti. Vinsælast var að kenna fitubollum í LK aðhaldi um glæpinn. Þetta var allt með miklum ólíkindum af því að í hvert skipti sem ég fór í Bónus þá var alltaf til nóg af smjöri í hillunum. En verandi sannur Íslendingur þá gat ég ekki stillt mig um að hamstra þetta horfna smjör svona til öryggis. Nú sit ég uppi með 2 kíló af smjöri. Ég sem nota alls ekki smjör. Og engar líkur á að ég geti selt þessar smjörbirgðir mínar með hagnaði því allt var þetta byggt á lævísum áróðri mjólkurframleiðenda til að þrýsta á um aukinn mjólkurkvóta! Og ráðherrann kolfellur fyrir lyginni og áróðrinum eins og upp var lagt með og boðar nú endurskoðun á kvótakerfinu í landbúnaðinum. Nú bíð ég spenntur eftir fréttum af skorti á nýrri ýsu í fiskbúðum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.