6.12.2013 | 16:13
Hanna Birna í nauðvörn
Samkvæmt tilkynningu á vef Innanríkisráðuneytisins þá boðar nú Hanna Birna framlagningu frumvarps, sem bannar nauðungarsölur fram á mitt næsta ár. Stutt er síðan hún þvertók fyrir að beita sér fyrir slíkri lagasetningu og vísaði til eignaréttar kröfuhafa sem ástæðu. það var ekki í fyrsta skipti sem ráðherrann tók að sér hlutverk lögskýranda og dómara. Slíkt gerði hún einnig varðandi Gálgahraunsmálið og Teigsskógardeiluna þótt með öfugum formerkjum væri, sitt hvort deilumálið. Þetta er sú ímynd sem þjóðin hefur af núverandi Innanríkiráðherra og engum er rótt nema kannski Geir Haarde, sem sér fram á náðun og uppgjöf saka. En réttur kvenna er víst að vera óútreiknanlegur og tækifærissinnaður og um faglega stjórnsýslu er ekki spurt. Alla vega ekki hjá Hönnu Birnu eða teboðskellingunni í Iðnaðarráðuneytinu.
Og það sýnir bezt hversu Bjarni Benediktsson er veikur formaður að hann virðist ekki hafa burði til að skipta þessum óhæfa ráðherra út. En kannski hefur það samt komið til tals miðað við þetta nýjasta útspil. Það hlýtur að vera erfitt fyrir Hönnu Birnu að vera neydd til að leggja fram þetta frumvarp sem bannar nauðungarsölur, þvert á fyrri yfirlýsingar.
Kannski að ráðamenn í flokknum ættu að spyrja sig hvers vegna fylgi við flokkinn heldur áfram að dala. Gæti það verið vegna framgöngu ráðherranna og þess hve lítið traust þeir höfðu áður en ríkisstjórnin var mynduð? Bjarni Ben er sjálfur ekki búinn að bíta úr nálinni með Vafningslögbrotið og innherjasvikin varðandi söluna á hlutabréfunum í Glitni. Og Illugi sem fékk vini sína til að veita sér aflausn vegna Sjóðs 9, hefur ekkert traust útfyrir þessa fáu sem studdu hann í prófkjörinu. Og Hanna Birna sem hefur komist til áhrifa með mjög svo óheiðarlegum hætti. Fyrst með svikum gegn Vilhjálmi Vilhjálmssyni og svo tilraun hennar til að velta Bjarna Ben úr sessi. Ég lýsi fyrirlitningu á svona bolabrögðum og þótt tilgangurinn hafi verið góður þá voru meðulin það ekki og það er það sem vantar í pólitíkina. PRINSIP! það er fullt af minnipokamönnum með engin prinsip. Þessi ásýnd flokksins blasir við öllum nema flokkseigendafélaginu sem hamast nú við að endurskrifa söguna með nýjasta greinaflokki Hannesar Hólmsteins um þjóðsögur og bankahrun.
Mér er svo sem sama þótt Sjálfstæðisflokkurinn haldi áfram að tapa fylgi. En það væri samt betra að fá nýtt fólk inn í ríkisstjórnina. Fólk sem hefði alla vegana óflekkað pólitískt mannorð. Það er til. Hinir óhæfu þurfa bara að víkja fyrst.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.