13.12.2013 | 10:39
Innbyggð sóun í kvótakerfinu
Enn á ný ætla ég að nota þennan vettvang til að vekja athygli manna á skaðsemi kvótakerfisins. Nú er tilefnið fréttir af mikilli ýsugengd á grunnslóð og þeirrar staðreyndar að veiðiráðgjöf Hafró tekur ekkert tillit til raunverulegrar fiskgengdar. Öll þeirra ráðgjöf byggir á 2 rannsóknarleiðöngrum á ári og ef ýsan er svo óheppin að vera ekki stödd á stefnumótastöðum Hafró þá er hún ekki til. Hafró tekur ekkert tillit til náttúrulegra umhverfisþátta. Þeirra vísindi snúast um að mata tölvulíkan á gögnum sem er aflað á 2 vikum af 52. Og þegar líkanið segir að ekki megi veiða ýsu þá þýðir það ekki að ýsa veiðist ekki. Það þýðir bara að ýsan er ekki lengur færð til bókar í fiskibókhaldi Fiskistofu. Afleiðingin er tvennskonar. Í fyrsta lagi þá grefur svona fiskveiðistjórnun undan trausti sjómanna á vísindalegri veiðiráðgjöf og í öðru lagi þá skekkir þetta grundvöll líkansins. Sem aftur veldur því að þegar fiskur finnst sem ekki á að vera til þá neita Hafrómenn að auka kvótann sem aftur veldur því að sjómenn finna leiðir til að hunsa svona arfavitlausa veiðiráðgjöf.
Ætlar Sigurður Ingi að láta það gerast á sinni vakt? Það liggur í augum uppi að veiðiráðgjöfin var röng. Ýsustofninn á grunnslóð fyrir vestan og norðan og austan er miklu sterkari en Hafró mældi. Og þegar mæling er röng þá endurtaka flestir alvöru vísindamenn mælinguna en ekki Hafró!
Þetta gengur náttúrulega ekki svona lengur. Það verður að endurskoða mælingar Hafró og hætta að trúa á þetta reiknilíkan. Veiðar eru ekki og hafa eiginlega aldrei verið afgerandi þáttur í stofnstærð fiska. Þar spilar miklu stærri rullu, umhverfisþættir eins og hitastig, súrefnismettun og fæðuframboð en líka eigið afrán og afrán annarra sjávardýra. Hvað áætla menn að Háhyrningarnir í Breiðafirði hafi étið mikið af síld á þessu ári? Eru til einhverjar tölur um það? Ég stórefast um að þar á bæ hafi menn nokkuð rannsakað ætisvenjur Háhyrninganna. Og RÚV er búið að taka af vef sínum hlekk sem lengi var þar um fróðleik í sambandi við hvali. Þó er hægt að finna vefinn hér. Afhverju ákveðið var að taka hann af heimasíðu RÚV, verða þeir að svar fyrir. Hins vegar segir á Vísindavefnum: "Áætlað hefur verið að þær 83 tegundir hvala sem finnast í heiminum éti um 300 til 500 milljón tonn af sjávarfangi árlega. Það er um það bil 3 til 5 sinnum meira en fiskveiðifloti allra landa aflar". Þetta er ekki lítið magn og þótt ekki sé nema kannski þriðjungurinn af þessu magni fiskur, þá er fæðukeðjan bara ein í hafinu og það sem er étið úr henni neðst hefur áhrif upp alla keðjuna.
En auðvitað er ég enginn fiskifræðingur, ég reyni bara að beita heilbrigðri skynsemi í bland við áratugareynslu af veiðum og það hlýtur að vera komið að þeim tímapunkti að menn viðurkenni að
heildaráhrif kvótastýringar á veiðum eru þjóðhagslega skaðleg!
Það getur ekki verið réttlætanlegt að halda í stjórnkerfi sem lætur sjómenn henda afla sem þegar er dauður í sjóinn aftur. Og það getur ekki verið réttlætanlegt að láta hvali éta meira en helming af síldarstofni sem hefur tekið áratugi að byggja upp.
Við þurfum vitundarvakningu hjá fjölmiðlum og álitsgjöfum svo þeir átti sig á hversu mikið hagsmunamál er hér á ferðinni. Þetta er miklu stærra en svo að Sigurði Inga og LÍÚ sé treystandi fyrir að stýra ferðinni.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.