14.12.2013 | 15:10
Þegar rétt er rangt
Á Wikipedia má finna síðu sem höfundar kalla
Listi yfir íslenskar stafsetningar- og málfræðivillur
Þar er ýmislegt fróðlegt að finna og meðal annars, að réttara sé að segja og skrifa alkóhólisti en ekki alkahólisti. Þessu er ég ósammála. Við notum orðið alki og alls konar orðasambönd með forskeytinu alki en ekki alkói, þess vegna er rökrétt að segja alkahól en ekki alkóhól. Orðið alkahól hefur verið til í málinu í áratugi og engin ástæða til að breyta því. Ég man meira að segja vísubotn sem Bjössi bróðir Binna í Gröf, orti annað hvort 1965 eða 1966 og hljóðaði svo:
Aflasjóli upp í hól
Alkahólinn skefur.
Þá var ég nýfermdur að byrja sjómennsku sem 2. kokkur á síðutogaranum Úranusi RE 343. Meðal eftirminnilegra manna þar, var Bjössi kyndari, sem kynnti sjálfan sig aldrei öðruvísi en sem Bjössa bróðir Binna í Gröf. En Binni í Gröf var landsþekktur aflamaður í Vestmannaeyjum. Sjálfur var Bjössi hagmæltur með ágætum og synd að ég skuli ekki muna nema þennan eina vísubotn frá samverunni með Bjössa. En tilefnið var að í þá daga áttu skipstjórar sér leynibleyður sem þeir toguðu aðeins á ef þeir voru einskipa. Sverrir Erlendsson, skipstjóri á Úranusi átti sér svona bleyðu, sem kallarnir kölluðu Alkahól. Og er það skýringin á vísubotninum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:13 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.