18.12.2013 | 09:46
Rannsóknarnefnd samgönguslysa
Ég er ekki viss um að þær breytingar sem gerðar voru á síðasta Alþingi varðandi stofnun Samgöngustofu og sameiningu þriggja slysarannsóknanefnda í eina, hafi verið gáfuleg ráðstöfun. Einkum þessi pólitíska skipun nefndarinnar. Það getur verið að einhver hagræðing náist með þessum breytingum en það er á kostnað sérhæfingar og fagmennsku og þess vegna ekki góð stjórnsýsla. Það er ekki margt sameiginlegt með flugslysum, sjóslysum eða bílslysum. Þess vegna er það óskiljanlegt að fela sömu 7 manneskjum að rannsaka þessi ólíku samgönguslys. Skiptir engu þótt þau hafi sér til aðstoðar starfsmenn með sérþekkingu. Til að mynda er enginn nefndarmaður skipstjórnarmenntaður. Þetta hlýtur að skrifast á vanþekkingu ráðherrans sem er fyrst og fremst flokkspólitískur bittlingaúthlutari en ekki fagráðherra.
Svo er það Samgöngustofa. Hvernig á Samgöngustofa að vera stjórnvöldum til ráðgjafar varðandi verkfræðislysið í Landeyjarhöfn? Þegar haft er í huga að forstjóri Samgöngustofu er bullandi vanhæfur, verandi fyrrum forstjóri Siglingastofnunar og þar með sá aðili sem stærsta ábyrgð ber á Landeyjarhafnaklúðrinu.
Þessi 4 óhöpp sem hafa orðið við innsiglinguna í Landeyjarhöfn virðast ekki hafa valdið neinum áhyggjum hjá ráðamönnum. Samt segir í lögum um Rannsóknarnefnd samgönguslysa:
"Markmið laganna er að fækka slysum og auka öryggi í samgöngum með því að efla og bæta slysarannsóknir. Rannsókn samkvæmt lögunum skal eingöngu miða að því að leiða í ljós orsakir samgönguslysa og samgönguatvika, en ekki að skipta sök eða ábyrgð, með það að markmiði að draga úr hættu á sams konar slysum og atvikum og afleiðingum sambærilegra slysa segir í fyrstu grein frumvarpsins. Er hún sambærileg grein sama efnis og í gildandi lögum um rannsóknir flugslysa, sjóslysa og umferðarslysa nema orðalagi er breytt þar sem hún nær yfir öll slys í samgöngum. "
Þess vegna spyr ég: Er Rannsóknarnefndin að bíða eftir mannskæðu sjóslysi í Landeyjarhöfn áður en hún framfylgir lögunum sem henni ber að starfa eftir? Eða fór þessi málsgrein fram hjá nefndarmönnum?
"með það að markmiði að draga úr hættu á sams konar slysum og atvikum og afleiðingum sambærilegra slysa"
Þessi höfn er verkfræðilegur óskapnaður og úr því þarf að bæta. Þangað til ber yfirvöldum að takmarka siglingar við beztu aðstæður. Annað er ekki forsvaranlegt.
Herjólfur snerist í innsiglingunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sammála, þessi stofnanaóskapnaður Ögmundar á ekki eftir að ganga til lengdar.
Hvumpinn, 18.12.2013 kl. 18:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.