19.3.2014 | 14:34
Stjórn RÚV - Hvað gerðist?
Rekstrarár RÚV er frá 1/9 til 31/8 hvers árs. (Líkt og kvótaárið hvort sem það er tilviljun eða ekki)
Í upphafi þessa rekstrarárs tilkynnti fjárlagavaldið að skorið yrði niður um 300 milljónir til rekstrar RÚV. Stjórnin mat áhrifin hinsvegar upp á 500 milljónir og í kjölfarið sagði Páll Magnússon upp 60 manns og allt varð vitlaust. Enginn spurði hver ástæðan var. Umræðan fór strax að snúast um Adolf Inga og Guðna Má. Týpiskt fyrir fésbókarþjóðfélagið Ísland!
Þetta gerðist 27.nóvember 2013. Eins og við var búizt lenti Páll Magnússon undir flóði óánægjunnar og þá lét stjórn RÚV hné fylgja kviði og auglýsti starf Páls laust til umsóknar þann 17.desember, 2013. Sama dag tilkynnti Páll, að hann muni hætta samdægurs. Plott stjórnarinnar gékk eftir!
En svo kemur sem sagt út ársskýrslan fyrir síðasta rekstrarár, og er birt 30.desember. Stjórn RÚV (Magnús Geir núverandi útvarpsstjóri var í stjórninni) áritaði ársreikninga RÚV OHF. 29 des. 2013 og leyfði þá til birtingar. Í þessum ársreikningi fyrir rekstrarárið 2012-2013 var stofnunin rekin með 2 milljóna króna afgangi. Það sem er sérstakt við þennan ársreikning, er að hann er dulkóðaður. Það er ekki hægt að copy/paste beint úr skjalinu sem gerir tilvísun aðeins erfiðari. Ég hef aldrei áður lent í þessu með opinberar skýrslur og skjöl. Svo lengi sem orginal skjalið er geymt á öruggan hátt, þá er ekki hægt að falsa innihald skjals á vefnum!
En eitt vakti athygli mína við lestur skýrslunnar og það var í skýringum Starfsþáttayfirlits á bls.11:
Rekstur félagsins er a grundvelli laga um Ríkisútvarpið ohf. nr 23/2013, áður laga nr. 6/2007. Meginstarfsemi félagsins er útvarpsþjónusta í almannaþágu. Í hverjum mánuði er rekstraryfirlit liðins mánaðar lagt fyrir stjórn félagsins. Á grundvelli þess yfilits er frammistaða metin og ákvarðanir teknar um ráðstafanir fjármuna. Rekstri félagsins er ekki skipt niður á starfsþætti. Þ.e.a.s. reksturinn er allur innan eins starfsþáttar. Í mánaðarlega rekstraryfirlitinu er kostnaður brotinn niður á ítarlegri hátt en fram kemur í rekstrarreikningi
Í ljósi þessa er það sem síðar hefur gerst ansi merkilegt. Til dæmis uppsögn fjármálastjórans 3 janúar s.l svo og tilkynning stjórnarinnar frá 17.mars. En þar segir:
Niðurstaða uppfærðrar rekstraráætlunar er stjórn Ríkisútvarpsins mikil vonbrigði og hefur hún óskað eftir að fram fari óháð úttekt á fjármálum þess.
Þetta er alvarleg aðdráttun um störf og ábyrgð fyrri stjórnenda RÚV. Ef nú þarf að láta ríkisendurskoðun fara í saumana á bókhaldinu! Man einhver eftir Landsímamálinu og Háskóla Íslands? Maður getur ekki annað en tortryggt rekstur opinbers hlutafélags sem veltir 5 milljörðum á ári og sem hefur dregið saman þjónustu um þriðjung á liðnum árum en kostnaðurinn minnkar ekki! Og þessar afborganir vegna hússins eru ekki að sliga rekstur RÚV. Það er blekking sem allir geta skoða sjálfir hvort getur staðist. Sérstaklega þar sem lánið vegna byggingar útvarpshússins er í ríkisábyrgð. það er ekkert einfaldara en RÚV flytji úr þessu húsnæði og eftirláti það eigandanum sem er ríkið. En hvort RÚV finni annað húsnæði sem kostar minna en afborganir lána af Efstaleitinu er mér til efs. Líklegra er að nú fái einhver gæðingur feitan leigusamning vegna RÚV.
Og ennfremur segir í tilkynningu stjórnar:
Stjórn hefur jafnframt óskað eftir því við nýráðinn útvarpsstjóra, Magnús Geir Þórðarson, sem hóf störf í síðustu viku að hann fari yfir rekstraráætlanir með það að markmiði að reksturinn komist í jafnvægi sem fyrst.
Og eins og hlýðið lamb boðar Magnús Geir til fundar með starfsfólki og rekur alla framkvæmdastjórnina með tölu. Ef þetta er ekki vantraust í sinni tærustu mynd þá veit ég ekki hvað vantraust er. Það verður fróðlegt að fylgjast með samstarfi núverandi útvarpsstjóra og yfirmanna hans. Magnús hefur ekki pólitískt umboð til róttækra breytinga. Þar kemur að stjórn RÚV að standa með sínum manni.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:45 | Facebook
Athugasemdir
Var þetta nú ekki nokkuð fyrirséð?
Kristján B Kristinsson (IP-tala skráð) 19.3.2014 kl. 15:48
Hvað nákvæmlega, Kristján? Að nú eigi að fara fram úttekt á bókhaldinu eða að Magnús reki þá sem bera ábyrgð á fjárhagsáætlunum áður en hann fer yfir þessar áætlanir og gerir tillögur um úrbætur? En segi samt að hann sé tilbúinn að ráða þessa framkvæmdastjóra aftur ef þeir sæki um? Fyrirgefðu, en þetta gengur ekki upp. það er eitthvað allt annað í gangi með framtíð RÚV. Og ég er ekki viss um að okkur almenningi verði hleypt að umræðunni um framtíð RÚV. Ekki einu sinni starfsmönnum RÚV nema sérvöldum fulltrúum útvarpsstjórans og stjórnarinnar sem verða skipaðir í framkvæmdastjórn RÚV bráðlega.
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 19.3.2014 kl. 16:57
Manni fannst eitthvað meira liggja í loftinu þegar Páll var látinn fara.
Kristján B Kristinsson (IP-tala skráð) 19.3.2014 kl. 19:25
Einmitt. Þá hefði átt að reka þessa framkvæmdastjóra til að sýna að stjórnin bar hag RÚV fyrir brjósti en ekki flokkshagsmuni stjórnarliða. Að láta Magnús reka þá lýsir pólitísku hugleysi.
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 19.3.2014 kl. 19:36
Já það alveg rétt, það hefði verið skynsamlegra ef þeir hefðu haft hugrekki til þess og þá hefði Magnús verið í miklu betri og sterkari stöðu til að endurskipuleggja útvarpið.
Kristján B Kristinsson (IP-tala skráð) 19.3.2014 kl. 20:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.