20.11.2014 | 15:51
Skuld er skuld nema íslenzk sé
Eftirmálar fjármálakollsteypunnar og bankahrunsins hafa hverfst um uppgjör skulda. Eða öllu heldur niðurfellingu skulda. Ætla má að höfuðstólslækkunin nýjasta verði endahnykkurinn á þeim skollaleik öllum. En hvað ætli þessar aðgerðir hafi kostað þjóðfélagið í óþarfa vinnustundum við málaferli, argaþras og útreikninga. Að ótöldum þjáningum, töpuðum vinnustundum og óþarfa gjaldþrotum? Er einhver sem mun nokkurn tímann reikna það út?
Þetta er svo fáránlegt þegar ein einföld lagasetning hefði dugað til að bæta tjón allra lántaka vegna gengisfalls og verðbólguskots í kjölfar hrunsins. Aðgerð sem snérist um að taka vísitöluna úr sambandi miðað við þann dag þegar ríkisstjórn Geirs Haarde varð ljóst, að hrun var yfirvofandi og engu yrði bjargað í þeim efnum. Þessi dagsetning má áætla með nokkurri vissu, að hafi verið í febrúar 2008. Á sama tíma og Bjarni Benediktsson seldi hlutabréfin sín í Glitni og Kristján og Þorgerður Katrín stofna einkahlutafélagið 7 Hægri, um hlutabréfaeign sína í Kaupþingsbanka.
Þessi einfalda aðgerð hefði komið í veg fyrir forsendubrestinn margumrædda og jafnframt tryggt jafnræði skuldara og skuldlausra. Síðan átti náttúrulega að setja lög um meðferð gjaldeyrislána í stað þess að leyfa Árna Páli að fara sínu fram með hinni fordæmalausu lagasetningu kenndri við hinn sama. Lagasetningu sem jók ójöfnuð og varð beinlínis til þess að sumir komust upp með að borga ekki lánin sín vegna tæknigalla í lánasamningi. Þetta varð svo kveikjan að kröfunni um almenna skuldaniðurfellingu sem náði langt aftur fyrir hrun eins og dæmi er um í skuldaniðurfærslu Tryggva Þórs Herbertssonar.
Þetta er afleiðingin af stjórnvizku fjórflokksins. Þar sem allt snýst um að deila og drottna og ef eitthvað er einfalt þá skal gera það flókið og ógegnsætt þannig að almenningur verði æ háðari hinu pólitíska valdi.
Um Það snýst pólitík fjórflokksins. Er ekki kominn tími til að gefa þessu fólki frí?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:54 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.