29.11.2014 | 15:38
Þráhyggjan lætur mig ekki í friði
Ég viðurkenni það alveg að RÚV er orðið að sjúklegri þráhyggju í huga mér. Ég hugsa mjög mikið um, hvernig sú stofnun ætti ekki að vera. Og það er meinsemd. Af hverju í ósköpunum er ekki hægt, að reka hér útvarp og sjónvarp í almannaþágu, án þess að skattpína til þess allan almenning? Og nú er búið að fallast á að RÚV fái nefskattinn óskertan næsta ár, án þess að gera eigi neinar kerfisbreytingar eða úttekt á rekstrinum.
Síðan RÚV varð ohf. er ekki hægt að lesa neitt af viti út úr ársreikningum. Samkeppnisvernd heitir það núna þegar stjórnendur þurfa að fela óráðsýju í rekstri. Þessu þarf að breyta. RÚV á að vera rekið með sama sniði og Þjóðleikhúsið og það sem væri langbezt, er að sameina þessar tvær stofnanir undir merkjum þjóðmenningar. Þetta hélt ég og vonaði að Magnús Geir myndi vinna að. Komandi úr leikhúsi, hlýtur hann að sjá hversu mikla samlegð í mannauð er hægt að ná við sameiningu, að ég tali ekki um efnið sem til er í fórum Þjóðleikhússins og hægt er að pússa rykið af í samvinnu við RÚV.
Ég er ekki að segja að allir starfsmenn RÚV séu illa talandi aular. En samt of margir. Lærðir leikarar eru bezta útvarpsfólkið. Þjóðleikhúsið hefur ekki ráðið nógu marga leikara á föst laun vegna fjárskorts. Þar má segja að ríki ákveðinn hæfileikaskortur. Sameinaðar geta þessar stofnanir bætt mannauð hvorrar annarrar. Ef ekki er pláss fyrir leikara í sýningu þá færi hann bara til starfa í útvarpinu eða sjónvarpinu. Losum okkur við Andra og Gunnu Dís, Sólmund Hólm og Steinunni Ragnhildi. Látum fagfólk í útsendingar, ekki leyfa illa talandi fólki af götunni, að sjá um að talað mál. Hvorki í útvarpi né sjónvarpi.
Þetta á að gera, en ekki breyta RÚV í pop vinsælda fjölmiðil í samkeppni við stöð 2 og Bylgjuna. Rás 2 hefur bara akkúrat ekkert hlutverk í því sem kallast menningarmiðlun. Ég hafna því alfarið að sub-kúltúr sé kúltúr.
Og til hvers er RÚV að leggja svona ofuráherzlu á íþróttir á sama tíma og verið er að hætta hliðrænum útsendingum. Stafræn útsendingartækni gerir óþarft að eltast við allar þessar boltakeppnir í samkeppni við áskriftarstöðvar. Allt í lagi að segja frá jaðarsporti og helstu úrslitum stórmóta, en ekki eyða stórfé í að gera það sem aðrir gera betur.
Og í guðanna bænum gerið upp lífeyris-skuldbindingar og greiðið framvegis lögbundin lífeyrisframlög strax! Ekki þetta ógagnsæi sem felst í frestuðum greiðslum. Afleiðingin af slíku bókhaldi kemur ríkinu í koll og veldur því að ráðið er í fleiri stöðugildi en hægt er. Þetta hljóta allir að skilja. Við höfum bara efni á ódýru almannaútvarpi. En gerum það vel. Það er hlutverk útvarpsstjóra að útfæra slíka framtíðarsýn. Ekki bulla um að RÚV eigi að vera leikhús þjóðarinnar og samkomuhús ef ekki á að miðla menningu heldur bara auglýsingum og bulli ala 60 ára popsérfræðinga Rásar 2.
Í leikhúsinu er fólk boðið velkomið og óskað góðrar skemmtunar.
Hjá RÚV eru auglýsendur boðnir velkomnir á undan gestum. Er þetta sá veruleiki sem Magnús Geir ætla að bjóða uppá?
Hvað þarf ég að skrifa marga pistla áður en eitthvað breytist?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:11 | Facebook
Athugasemdir
Leiðrétt vegna skorts á réttum greinamerkjum. Sumir segja að engin þörf sé að setja punkta og kommur á réttum stöðum. Ég er ekki sammála. Rétt sett greinamerki skipta höfuðmáli í lestri á texta.
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 29.11.2014 kl. 16:16
Og það á ekki að borga fólki fyrir að sitja í stjórn RÚV. Hvað er að þessu fólki?. Er ekkert til lengur sem flokka mætti skyldur. Að vera tilnenfdur í stjórn RÚV og aðrar slíkar stofnanoir á vegum ríkisins ætti að vera virðingarstaða og ekki vera launað. Enda eru allt þetta fólk á fullum launum eða jafnvel margföldum launum annars staðar á jötunni.
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 29.11.2014 kl. 17:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.