8.12.2014 | 14:23
RÚV er ekki sameiningartákn
Leigupenninn Guðmundur Andri gagnrýnir gagnrýni án raka. Rithöfundinum lætur betur að nota háfleyg orð en færa efnisleg rök fyrir staðhæfingum sínum. Ekki einu sinni er það rétt í orðavaðlinum, að RÚV sé sameign þjóðarinnar. Það er með það eins og kvótann.
Í 1.gr fiskveiðistjórnarlaga segir, að kvótinn sé sameign þjóðarinnar.
Í 1. málsgrein laga um ríkisútvarpið segir "Ríkisútvarpið er sjálfstætt opinbert hlutafélag í eigu íslenska ríkisins"
Enginn nema Loðvík Sólkonungur hefur haldið því fram að hann sé Ríkið (L'État, c'est moi), ekki einu sinni Guðmundur Andri! Og þar sem almenningur er ekki ríkið þá á almenningur ekki ríkisútvarpið.
En á nákvæmlega sama hátt og fámenn klíka sölsaði undir sig kvótann þá sölsaði vinstri sinnaða menningarelítan undir sig Ríkisútvarpið og berst gegn öllum breytingum með kjafti og klóm.
Við hvað eru menn svona hræddir? Af hverju forðast menn að horfast í augu við breytta tíma. RÚV er ekki persóna. RÚV er bara fólkið sem vinnur þar hverju sinni. Og því miður þá hafa ör mannaskipti leitt til þess að gæði þess sem RÚV stendur fyrir hefur minnkað. Og þótt mamma Guðmundar Andra hafi verið ein af þeim sem mótaði það ríkisútvarp sem allir vísa til og vilja aftur, þá eru bara aðrir teknir við sem hafa ekki þessa mannkosti sem gömlu útvarpsmennirnir og konurnar höfðu. Þegar menn eru tilbúnir að viðurkenna þessa staðreynd er hægt að ræða málefni R'UV við þetta lið á vitrænan hátt.
Það þýðir ekkert að fara alltaf með sömu möntruna um menningargildi þess liðna þegar þeir sem nú stjórna hafa lægri menningarstandard. Og það þýðir ekki heldur að tala um allt efnið sem RÚV á og geymir þegar enginn metnaður er hjá dagskrárstjórum til að miðla þessu efni. Sem dæmi þá hefur Sarpurinn varla verið uppfærður síðastliðið ár. Hvort sem um er að kenna áhugaleysi eða trassaskap.
Og síðan er full ástæða til að gera athugasemdir við brot dagskrárstjórnar og auglýsingadeildar á heimildum til að selja auglýsingar og kostanir. Í lögum um þennan svokallaða "fjölmiðil í almannaeigu" er sérstakur kafli sem fjallar um viðskiptaboð. Þar er sérstaklega bannað að rjúfa venjulega dagskrárliði með auglýsingum. Nema um stórviðburði eða meiriháttar íþróttakappleiki sé. Þá er heimilt að senda viðskiptaboð. En hvað gerir ekki RÚV þegar Útsvar og það sem þeir kalla skemmtiþætti, er á dagskrá? Jú þeir brjóta þessi fyrirmæli af ásetningi og gera eins mörg hlé og auglýsendur vilja á öllum þáttum með eitthvert áhorf og þeir komast upp með það því það fer enginn eftir lögum á Íslandi.
Og þó það standi skýrt í II kafla laganna að:
- Ríkisútvarpið skal skapa vettvang fyrir aðkomu almennings að stefnumótun fjölmiðlunar í almannaþágu með fyrirkomulagi sem nánar er kveðið á um í samþykktum Ríkisútvarpsins.
Þá er almenningur áhrifalaus. Ef almenningur réði einhverju þá væri löngu búið að aðlaga sjónvarp RÚV að fyrirmynd DR1. Þar kunna menn að reka almannasjónvarp án auglýsinga. Þar er dagskrá sem hægt er að horfa á allan sólarhringinn og þar finna flestir eitthvað við sitt hæfi og geta treyst að þetta efni er á réttum stað í dagskrá á auglýstum tíma. Þar er ekki þetta hringl og rugl í dagskrárliðum.
Og ef almenningur fengi einhverju ráðið þá væri íþróttarásin nýtt undir íþróttaefni og auglýsingar. Og RÚV myndi njóta ágóðans af sölu efnis sem það stendur undir kostnaði af að gera en léti ekki einkafyrirtæki bæði framleiða og dreifa á sölumarkaði.
Um RÚV má segja eins og í Borðsálmi Jónasar: Það er svo margt ef að er gáð, sem þörf er um að ræða....
Ræðum það sem er að og betur má fara. Þetta snýst ekki um pólitík nema að litlu leyti.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:36 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.