24.6.2015 | 14:50
Veiðigjaldavitleysan
Alveg er makalaust hversu alþingismenn eru fastir í þeim pytti sem svonefndir "auðlindahagfræðingar" drógu þá útí að undirlagi Steingríms J. og Indriða H. Þorlákssonar. Veiðigjaldaskattur í því formi sem hann er hugsaður gengur aldrei upp og getur aldrei verið grunnur að réttlátri og eðlilegri auðlindarentu. Enda er ráðherrann í stökustu vandræðum með þessa skattheimtu eins og þetta frumvarp sýnir. Hvernig í ósköpunum ætla menn að leggja á auðlindaskatt, sem byggir á afkomu síðasta fiskveiðaárs? Sjá menn ekki hversu rangt það er? Tökum sem dæmi makrílinn. Á síðasta ári var góð afkoma hjá þeim sem stunduðu makrílveiðar og nú vilja þingmenn nota þann hagnað sem þá varð til til þess að leggja á hækkaðan auðlindaskatt. Hætt er við að ekki sé innistæða fyrir þeim skatti hjá mörgum útgerðum í dag og hvar eiga menn þá að ná inn þeim tekjum til að standa undir þessari eftiráskattlagningu?
Er ekki nær að skattleggja veiðarnar strax og fiskurinn veiðist? Skylda útgerðir til að selja allan afla á markaði og taka sérstakt hráefnisgjald sem næmi 20% af brúttóaflaverðmæti sem þannig myndaðist og skila því til ríkissjóðs sem auðlindarentu.
Þetta er svo borðleggjandi að mér er fyrirmunað að skilja af hverju enginn nema ég bendi á þessa lausn á þessu eilífa þrætuepli. Allt þetta þref fram og til baka í alþingismönnum og atvinnuþrefurum er til þess eins að flækja málið og hindra að útgerðin greiði fyrir kvótann. Því þessi auðlindaskattur sem þeir hafa greitt eru sýndargjöld og langt frá nokkru sem eðlilegt getur talist. Og þetta gaspur Bjarna Ben um stofnun auðlindasjóðs er dæmigert fyrir pólitíska hugsun. Stofna sjóði sem pólitíkusar sjá um að varðveita er ekki hugsað til hagsbóta fyrir þjóðina heldur miklu fremur til að treysta fjórflokkinn í sessi. Alþingismenn vilja deila og drottna. Alveg eins og sést í fjárlagagerðinni.
Burt með slíka hugsun. Einföldum kerfið. Köllum hlutina réttum nöfnum og notum rétt hugtök sem allir skilja sama skilningi. Í þessum anda legg ég til að hráefnisgjaldið verði kallað skattur en ekki auðlindarenta og að við leggjum auðlindaumræðuna á ís þangað til búið er að skilgreina hverjar auðlindir íslands eru
Veiðigjöld hækki í 9,6 milljarða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.