Auðlindarenta er ónýtt hugtak

Hagfræðingar bjuggu til hugtakið auðlindarenta og reyndu að útfæra það við innheimtu auðlindagjalds af úthlutuðum fiskkvóta.  Sú tilraun gekk ekki upp.  Samt halda menn áfram að staglast á þessari leið eins og allsherjarlausn á öllum okkar vanda.

Svo eru aðrir sem alltaf klifa á uppboðsleiðinni og telja hana leysa deilurnar um réttlátt afgjald fyrir aðgang að veiðum á sjávarfangi. Þetta er náttúrulega mikil einföldun því kvótasetning snýst fyrst og fremst um aðgangshindranir til að vernda þá sem fyrir eru í atvinnugreinum sem eru kvótasettar. Réttlætið næst ekki með því að fjársterkar útgerðir geti yfirboðið einyrkjana í uppboðum á aflaheimildum. Réttlætið næst með því að ryðja aðgangshindrunum úr vegi til að auka atvinnuþáttökuna. 

Þegar búið var að prófa að innheimta veiðigjald samkvæmt módeli sem smíðað var af hagfræðingum upp í HÍ og í ljós kom að það var ónýt aðferð var farin sú leið að innheimta málamyndaskatt. Þessi skattlagning mismunar mönnum og útfærslan er alltof flókin.

Þess vegna hef ég í mörg ár reynt að benda mönnum á einu réttu leiðina við að skattleggja þennan atvinnurekstur og sú leið er bæði einföld og árangursrík en umfram allt sanngjörn og alls ekki íþyngjandi. Já ég er að tala um 2 grundvallarbreytingar á fiskveiðistjórnuninni.

  1. Framsal verði bannað
  2. Allur afli verði seldur á markaði

Þegar þessum skilyrðum er fullnægt þá náum við markmiðum um sanngjarnt afgjald með því að innheimta ákveðið sölugjald af hverju seldi kílói og köllum það hráefnisgjald. Þessi prósenta ræðst svo af framlegð viðkomandi tegundar í útflutningsverðinu. Þannig munu kaupendur þurfa að tilgreina hvort um sé að ræða hráefni til sölu innanlands, til útflutnings eða í mjöl og lýsi. Þannig má skattleggja áætlaða framlegð strax.  Það þarf ekkert að fara inní bókhald fyrirtækjanna og nota allskonar kúnstir til jöfnunar eins og reynt var að gera með auðlindarentugjaldinu. 

Ef við miðum við 25% hráefnisgjald sem yrði greitt af óskiptu aflaverðmæti nota bene, og 250 krónu meðalverð á kíló sem færi til frekari vinnslu innanlands þá erum við að tala um kannski 200 þúsund tonn og það myndi skila ríkissjóði 12.5 milljörðum. Síðan kæmi flokkur 2 sem bæri kannski 30% álag og það væri fiskur til útflutnings ferskur. Þessi fiskur selst alla jafna á hærra verði á markaði svo við erum að tala um kannski 90 krónur x 20 þúsund tonn sem gæfi 1.8 milljarð. Og þá eru eftir síldin, loðnan, makríllinn og kolmunninn. Ef við miðum við 20 milljarða útflutningstekjur af þessum tegundum og tökum bara lágmarksgjald eða 25% þá er þarna um 5 milljarða að ræða.  Samanlagt ætti því fiskurinn að skila ríkissjóði 20 milljörðum á ári miðað við þennan lágmarkskvóta sem við erum að veiða.  Margir telja óhætt að tvöfada þennan kvóta.  Þá erum við að tala um 40 milljarða.  Það er raunhæf tala.

Þessi aðferð sem ég er að leggja til er líka sú bezta vegna þess að hún byggir á markaðsforsendum hverju sinni. Og síðast en ekki sízt þá virkar þessi aðferð sem sóknarstýring.  Þegar bannað verður að framselja kvóta og komin á virk veiðiskylda þá myndast svigrúm til nýliðunar og eins þegar kvóti verður aukinn og eða útgerðum hætt og kvóta skilað, þá verður þeim kvóta úthlutað að nýju. Þessi leið leiðir heldur ekki af sér neina áhættu fyrir bankakerfið. Það er ekki verið að tala um að innkalla kvóta eða taka hann af þeim sem þegar veiða sinn kvóta sjálfir. Þannig að veðin standa í skipum eins og áður en ekki í óveiddum fiski. En erfingjarnir munu þurfa að fá sér vinnu og kellingarnar þurfa að umbera kallana því kvótabraskið væri úr sögunni.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Það er þjóðhagslega betra að láta 100 skip veiða 350 þúsund tonn af þorski heldur en 50 skip.  En það er betra fyrir eigendur 50 skipa að sitja einir að þessum afla.  Í þessum mun liggur blekkingin um hagkvæmni kvótakerfisins. Stjórnmálamenn rugla vísvitandi því sem er hagkvæmt fyrir útgerðina og telja það sjálfkrafa líka hagkvæmt fyrir þjóðfélagið.  Undir þetta taka svo hagfræðingarnir og fiskifræðingarnir og fjölmiðlamennirnir þangað til meirihluti þjóðarinnar er orðinn heilaþveginn af þessum lygum og blekkingum.

Ef menn vilja setja á kvóta til að stýra markaðsverði þá eiga menn að segja það. Ekki gera heila vísindagrein ótrúverðuga með því að þykjast vita hvað margir fiskar eru í sjónum. Fiskifræðingar á Hafró eru svo búnir að gera í brókina að þeir eru ekki lengur marktækir í umræðunni um sjávarútvegsstjórn og brýnt að endurskoða þetta rugl með samstarf við ICES. Þegar álbræðslurnar loka ofnunum og túristarnir eru horfnir á braut þá munum við aftur þurfa að stóla á sjávarútveg til að skapa gjaldeyristekjur. Þá er betra að vera í stakk búinn til að veiða það magn sem til þarf

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 23.1.2016 kl. 07:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband