Ég skal vera Björn

Framsóknarmenn með forsætisráðherrann í fylkingarbrjósti eru greinilega komnir í kosningaham þótt enn séu full 2 ár eftir af kjörtímabilinu. Einn ráðherrann er búinn að ráða sér kosningastjóra og Hallur Magnússon farinn að skrifa athugasemdir. Þetta eru eins áreiðanleg merki um að Framsókn sé komin í kosningaham eins og koma lóunnar að vori. Gott og vel.  Það er þeirra mál. Þeir verða dæmdir af verkum sínum eins og allir. 

kari.jpg  En það pirrar mig að forsætisráðherrann skuli vera svona pirraður út í Kára Stefánsson að hann hafi ráðið almannatengil flokksins í að dreifa skít um Kára Stefánsson!Þetta segir Kári og ég trúi honum.  Hann hefur enga ástæðu til að ljúga um samskipti sín við Inga Frey Vilhjálmsson á Stundinni.  En sá piltur var höfundur flökkusögu sem gengur nú um netheima og er ætlað að sá efasemdum um heilindi og framgöngu Kára Stefánssonar í sambandi við gjöf Íslenskrar Erfðagreiningar á jáeindaskannanum til LSH.  Og það var meira að segja gengið svo langt að blanda bróður Kára inní málið til að láta gerninginn lykta af frændhygli og spillingu og draga þannig úr trúverðugleika Kára Stefánssonar. Þessi skrif Inga Vilhjálmssonar eru forkastanleg og á skjön við góða blaðamennsku og hann verður að skýra þau nánar. Ef Framsóknarflokkurinn telur að gagnrýni Kára á of lágt framlag til heilbrigðismála komi til með að skaða flokkinn í næstu kosningum þá er þeim í lófa lagið að hækka framlag ríkisins verulega í stað þess að styrkja bændur um 140 milljarða samkvæmt nýjasta velgjörðargjörningi landbúnaðarráðherrans sem er jú varaformaður flokksins.

Flokkur með góða samvisku þarf ekki þjónustu PR ráðgjafa. Og forsætisráðherra með sjálfsvirðingu og sæmilega góða geðheilsu er ekki að munnhöggvast við fólk út í bæ og alls ekki í gegnum samfélagsmiðla.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það er reyndar ekki nema rétt rúmt ár þar til kosið verður til Alþingis Jóhannes, nema búið sé að breyta tímalengd hvers kjörtímabils. Það hefur alveg farið framhjá mér. Vel má vera rétt að Framsókn sé farin að hugsa til næstu kosninga, en það á við um alla hina flokkana líka, ekki síður.

Kári er sniðugur maður, eins og flestir vita og hann kann einnig pólitík út í ystu æsar. Það mál sem Ingi Freyr skrifar um er að sett hafi verið skilyrði fyrir afnotum af skannanum fína. Þessu hefur Kári ekki mótmælt, einungis sagt að það hafi ekki verið sett á skriflegt form. Hins vegar nefnir Ingi Freyr ekki að krafa um nýtt hús undir skannan fylgdi gjöfinni og frá þeirri kröfu getur Kári ekki talað sig, sama hversu mikill stjórnmálamaður hann er. Ástæðan er einföld, hann lagði þessa kröfu fram við afhendingu gjafarinnar, opinberlega. Þetta hús kostar spítalann á annan milljarð króna, meðan tækið sjálft kostar ekki nema 850 milljónir. Það er til staðar pláss innan veggja spítalans fyrir þetta tæki og það sem því fylgir og gæti það fyrir löngu verið komið í notkun, fyrir mun minna fé, ef Landspítalinn hefði einfaldlega afþakkað gjöfina og keypt sjálft tækið.

Við skulum ekki gleyma þeirri staðreynd að Kári var ekki að gefa Landspítalanum nokkurn skapaðan hlut, heldur fyrirtækið sem hann er í vinnu hjá. Því hefur hann ekkert með að leggja fram kröfur um eitt né neitt. Það kemur ekki ein einasta króna úr vasa Kára Stefánssonar vegna þessarar gjafar.

Gunnar Heiðarsson, 21.2.2016 kl. 11:46

2 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Gunnar ég veit ekki af hverju þú og aðrir haldið áfram að fara með dylgjur. Árið 2008 kom fram þarfagreining frá Landspítalamönnum um nauðsyn þess að kaupa svona tæki.  Það myndi nýtast til greiningar á æxlum og við rannsóknir á fleiri sviðum læknavísindanna. Þess vegna var gert ráð fyrir sérstakri byggingu undir hann við hönnun nýs spítala.

http://www.landspitali.is/um-landspitala/frettir-og-vidburdir/frett/2015/08/13/Islensk-erfdagreining-gefur-Landspitala-jaeindaskanna/

Við hönnun nýbygginga á Landspítalalóð hefur verið gert ráð fyrir að koma fyrir þessu mikilvæga myndgreiningar- og rannsóknartæki.   Nauðsynlegt er að reisa nýtt húsnæði til að koma jáeindaskannanum fyrir á spítalanum og tengdum búnaði til að búa til geislavirk efni.  

Þetta er ekki einhver krafa frá Kára!  Og mér skilst að gjöfinni hafi líka fylgt loforð um að taka þátt í kostnaði byggingarinnar. Alla vega er hægt að lesa eftirfarandi á vef Íslenzkrar Erfðagreiningar:

Íslensk erfðagreining færði íslensku þjóðinni skannann að gjöf sem og allan tilheyrandi tækjakost og sérhæft húsnæði undir hann. Verðmæti gjafarinnar er rúmar 840 milljónir króna. Flókinn og umfangsmikill búnaður fylgir skannanum,  svo sem öreindahraðall sem framleiðir geislavirk efni sem leita í sjúka vefi líkamans. Jáeindaskanni er oftast notaður í krabbameinsmeðferðum en hann er einnig hægt að nýta í tauga-, hjarta- og gigtlækningum.

Og að endingu er vert að benda á að ákvarðanir taka sig ekki sjálfar.  Við erum svo óheppin að í embætti ráðherra valdist ákvarðanafælinn og framtakslaus einstaklingur og því ber að fagna og styðja við framtak Kára Stefánssonar hvort sem um ræðir PET skannann eða undirskriftasöfnunia.  En minnimáttarkennd lítilsigldra manna reynir allt til að smækka aðra af því þeir eru svo litlir sjálfir.  Það er fyrirlitlegt

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 21.2.2016 kl. 13:10

3 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

p.s Og að gera það tortryggilegt að Íslensk Erfðagreining fái aðgang að þessu rannsóknartæki ber vott um skilningsleysi á framþróun læknavísinda. Við erum nefnilega ótrúlega heppin að Kári hafi haft þessa hugsjón og hrundið henni í framkvæmd hér á íslandi. Hann var farsæll í Bandaríkjunum og hefði alveg getað haldið sig þar við miklu betri aðbúnað og betri skilning á mikilvægi þess sem hann ásamt öllum þeim fjölda vísindamannna í fremstu röð eru að gera. Landspítali Háskólasjúkrahús væri varla réttnefni ef við hefðum ekki Íslenska Erfðagreiningu og þennan þekkingarklasa sem hefur risið í Vatnsmýrinni.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 21.2.2016 kl. 13:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband