21.2.2016 | 16:23
Bændasósialismi
Fulltrúi sérhagsmunanna no.1 á Alþingi Íslendinga, Sigurður Ingi Jóhannsson tilkynnti fyrir nokkru að hann væri að vinna að nýjum búvörusamningi þar sem ætlunin væri að afnema kvótastýringu í sauðfjárrækt og mjólkurframleiðslu. Ef þetta hefði náð fram að ganga þá hefði verið hægt að kalla nýjan búvörusamning tímamótasamning. En nei, auðvitað gat þetta aldrei orðið. Það gleymdist nefnilega að bera málið undir Þórólf Gíslason og fá stuðning hans við stefnubreytingunni. Afleiðingin er vondur samningur fyrir ríkið. Vondur samningur fyrir bændur og áframhaldandi einokun afurðastöðvanna. Ennfremur er búið að setja varnagla við afnámi kvóta því tryggt er í samningnum að ríkið mun greiða fullt verð fyrir innlausn kvóta eftir 2020. Þetta þýðir að eigendur framleiðslukvóta í mjólk og kjöti fá tvöfaldar beingreiðslur fyrir að leyfa ríkisvaldinu að auka frelsi í greininni! Það er ekki eins og það sé verið að borga einhvern út. Nei menn munu hafa fullt frelsi til að auka tekjur sínar af bújörðunum en vera jafnframt á fullum listamannalaunum á kostnað skattgreiðenda. Þetta er ríkissósialismi af verstu gerð og grímulaus sóun á almannafé.
En það er áreiðanlega ekki á vitorði allra hvernig beingreiðslum er háttað, alla vega ekki í sauðfjárrækt. En þar hefur mönnum verið borgað fyrir ærgildi en ekki þurft að eiga nema 0.7 vetrarfóðraðar ær á móti. Þetta er sambærilegt og að Sjúkratryggingar greiddu Ásdísi Höllu fyrir 100 legurými en hún þyrfti ekki að leggja til nema 70! Fyndist mönnum það í lagi?
3.6 Til að fá fullar beingreiðslur þarf framleiðandi að eiga að lágmarki 0,7 vetrarfóðraðar kindur fyrir hvert ærgildi greiðslumarks. Þetta skilyrði fellur niður frá og með 1. janúar 2021.
3.8 Handhafar greiðslumarks geta óskað eftir innlausn á greiðslumarki sínu frá gildistöku samningsins til 31. desember 2020. Ríkissjóður skuldbindur sig til að kaupa greiðslumarkið á núvirtu andvirði beingreiðslna tveggja næstu almanaksára eftir að innlausnar er óskað samkvæmt ákvæðum samningsins. Matvælastofnun annast innlausn greiðslumarks. Þeim fjármunum sem þannig losna síðar á samningstímanum skal ráðstafað á aðra liði samkvæmt ákvörðun framkvæmdanefndar búvörusamninga.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:27 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.