Og þjóðarbúinu blæðir

Flestir sem til þekkja og eru ekki undir hæl ráðuneytisins og Fiskistofu telja að Hafrannsóknastofnun hafi brugðist í öllu, sem viðkemur veiðiráðgjöf undanfarin 30 ár. Sömu menn telja aðferðafræði stofnunarinnar ekkert eiga skylt við raunveruleg vísindi. Hvernig getur það flokkast sem raunvísindi, að búa til líkan í tölvu og mata það með gögnum úr talningarleiðöngrum vor og hausts og búa síðan til formúlu úr samanburðartölunum og kalla hana aflareglu?!  Alvöru vísindamenn myndu aldrei viðhafa svona vinnubrögð og þaðan af síður flokka það sem vísindi. Vegna þess einfaldlega að fiskurinn í sjónum er á hreyfingu og stærsti áhrifavaldur á vöxt og viðkomu fiskstofna eru ekki veiðar. Náttúran er besti veiðiráðgjafinn. Allt frá því að erlend veiðiskip hófu að veiða á íslenskum fiskimiðum, og fram til 1983,fór afli vaxandi, uns hann náði jafnstöðu, sem var 400-500 þúsund tonn af botnfiski á ári. Þessi jafnstöðuafli var einfaldlega afrakstursgeta fiskstofnanna með tilliti til fæðu, veiði, umhverfisþátta (hitastigs og áhrifa frá eldgosum o.fl) og síðast en ekki síst afráns stofnsins sjálfs. En afránið hefur alltaf verið innbyggður sveiflujafnari og skilað miklu betri árangri en allar friðunaraðgerðir Hafrannsóknarstofnunarinnar í gegnum árin.  Því friðun og veiðistýring sem elur upp stórfisk á tímum þegar skilyrði í sjónum eru góð, eru inngrip í náttúruna sem eru bara til bölvunar. Enda tókst fiskifræðingunum á Hafró næstum að ganga af þorskstofninum dauðum árið 2006.  Þá var svo komið eftir 20 ára veiðistýringu að hrygningarstofninn hafði minnkað um 1 milljón tonna frá því sem var í upphafi kvótakerfisins.

Almenn skynsemi og áratugareynsla af fiskveiðum segir mér, að ástæðan fyrir þessum áföllum hjá þorskinum sérstaklega, var af völdum friðunar, of lítilla kvóta með tilheyrandi brottkasti og síðan vaxandi ágengd hvala og síðast en ekki síst afráni þorsksins sjálfs á ungviðinu sem stafaði af versnandi fæðuskilyrðum á þessum árum. 

Að stofninn hafi hjarnað við og sé núna í góðu jafnvægi er ekki Hafrannsóknarstofnun og þeirra gervivísinda að þakka, heldur þvert á móti þrátt fyrir kolranga veiðiráðgjöf þá eru bara umhverfisskilyrðin í hafinu með besta móti. Nóg af æti, hitastig kjörið og aðeins 50% sóknarnýting.  Við þessi skilyrði þá hljóta stofnarnir að sækja í náttúrulegt jafnvægi. Og það mun gerast þrátt fyrir ranga aðferðafræði sem heilaþvegin stjórnmálastétt heldur áfram að trúa á í blindni.

Ráðamenn sem halda áfram að trúa því að veiðiráðgjöf Hafró byggi á vísindum, munu halda áfram að skaða þjóðfélagið með því að verja kvótakerfið og sjálftöku kvótagreifanna úr matarkistunni í sjónum.  Ég ætla ekki að kalla fiskinn auðlind.  Því það er hann ekki í skilningi takmarkaðra gæða af náttúrunnar völdum.  Fiskurinn er bara eins og hver önnur hlunnindi sem ber að nýta til hagssældar fyrir alla en ekki bara 2% ríkustu Íslendinganna úr stórútgerðarstéttinni.


mbl.is Bestu vísindin eru hjá Hafró
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Það að ekki heyrast lengur mikil mótmæli vegna fiskveiðistjórnunarinnar og kvótakefisins er ekki vegna þess að hagsmunaaðilar í greininni séu yfirhöfuð sáttir.  Nei langt í frá.  Þögnin stafar af hræðslu því menn hafa verið barðir til hlýðni með alls konar hótunum um atvinnumissi og tilheyrandi vonleysi sem enginn vill kalla yfir sig. Og þegar sjómenn manna sig loksins upp og fara bónarveg að ráðherranum þá hagar hann sér bara eins og argasti dóni með því að grípa til orwellsku sem enginn skilur.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 12.3.2016 kl. 08:43

2 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Aðferðafræði Hafró á lítið sem ekkert sameiginlegt með vísindum. Forhert hagsmunagæsla er mikið frekar rétta orðið yfir vinnubrögð þeirra, því miður. Eins og síðuhöfundur bendir réttilega á, blæðir þjóðarbúinu vegna þessa vitleysisgangs um milljarða á hverju ári. Hrikalegar upphæðir sem þar um ræðir, en því miður ekki nokkurt útlit fyrir breytingar á þessu fyrirkomulagi á næstunni.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 12.3.2016 kl. 18:12

3 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Því miður Halldór, þá er þöggunin alger og mikið verk að breyta þessu skaðræðiskerfi. það þarf margt að gerast til að það verði mögulegt. Sennilega bæði náttúrhamfarir og efnahagskollsteypu sem tæki fyrir þær tekjur sem þjóðfélagið fær nú af túristum, stóriðju og þjónustuútflutningi.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 12.3.2016 kl. 18:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband