16.4.2016 | 16:11
Húsafriðun og byggingalist
Arkitektar eiga það sameiginlegt með borgarstjórnarmeirihluta Samfylkingar að þeir þola engum að fjalla um arkitektúr og húsafriðun nema fáum útvöldum. Þess vegna meðal annars eru þessi mál í brennidepli í dag. Það er búið að klúðra svo mörgu. En það er ekki eingöngu slæmir verktakar heldur miklu fremur slæm pólitík sem borgararnir eru að mótmæla. Arkitektarnir eru þó enn í skjóli en það kann að breytast þegar frá líður og fleiri skipulagsslys líta dagsins ljós.
Friðun Bernhöftstorfunnar var einstök á sínum tíma og markaði upphaf að auknum skilningi varðandi friðun gamalla húsa. En forsendan fyrir þeirri friðun var, að þar var um heildstæðan klasa húsa að ræða. Ekki stök hús í breyttu umhverfi. En því miður þá hafa öfgamenn náð undirtökum í nefndum og ráðum og nú sjást menn ekki fyrir í friðunardellunni. Nýjasta dæmið er fjaðrafokið vegna Exeter hússins í Tryggvagötu. Í fyrsta lagi þá liggur ekki fyrir hvernig það hús var gert upp. Hvað var mikið af því húsi endurnýjað og hvað mikið var orginal. Þetta skiptir máli. Og er hægt að tala um húsafriðun þegar leyft er að þrengja að gömlum húsum með forljótum karakterlausum, steinsteypukumböldum og byggja undir kofann og lyfta honum upp. Þetta allt var leyft með framkvæmdaleyfinu í Tryggvagötu. Og átta sig svo á því að framkvæmdin er önnur en kontoristar gerðu ráð fyrir er kannski bara smjörklípa til að leiða athyglina frá ófremdarástandi í gatnamálum borgarinnar. Því það vill svo "heppilega" til að málið er á borði sama borgarfulltrúans.
Niðurrif Exeter hússins er nefnilega síst meira spellvirki en niðurrif fjölda annarra húsa sem enginn gerir athugasemd við. Til dæmis Íslandsbankahúsið í Lækjargötu. Og hvað um þessa uppbyggingu á Tryggvagötunni? Finnst mönnum flott teikningin af húsinu sem á að byggja við hliðina á exeter húsinu horfna? Þar á nefnilega að fullnýta lóðina með því að grafa niður jarðhæðina og byggja 5 hæðir í stað fjögurra eins og húsin við hliðina eru. Að hækka exeter húsið um eina hæð við hliðina á því byggingarslysi er bara klúður en engin redding.
Næst þegar svona árekstrar verða á milli hins gamla og þess nýja þá væri nær að varðveita hið gamla með því einfaldlega að finna því nýjan stað. Ef það hefði verið gert í þessu tilfelli þá hefði það aldrei verið rifið. Svo það er fyrst og fremst við skipulagssvið borgarinnar að sakast en ekki verktakann.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:34 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.