19.10.2017 | 20:27
Útfærsla auðlindagjalds er dæmi um hagfræðileg mistök
Ég er að hlusta á umræður á Stöð 2 með frambjóðendum í Suðvesturkjördæmi. Spurt var út í innheimtu auðlindagjalds. Svörin voru fyrirsjáanleg. Allir þuldu þessir frambjóðendur sömu möntruna um stórkostlegan árangur af þessu fiskveiðikerfi sem þau bjuggu sjálf til og nauðsyn þess að þjóðin nyti í einhverju góðrar afkomu greinarinnar. Enginn minntist á að kannski væri hægt að haga innheimtu þessarar auðlindarentu með öðrum og skilvirkari en jafnframt sanngjarnari hætti en nú er gert. Þar er ég að tala um að taka upp staðgreiðslu auðlindagjalds sem innheimt yrði við sölu aflans. Þetta er grundvallaratriði. Ekkert verið að flækja innheimtuna með flóknum reiknikúnstum. Allur afli á markað og allt upp á borðið. Þegar afli er seldur á markaði er einfalt að taka fyrst ákveðna prósentu af söluverði frá og eyrnamerkja þá upphæð auðlindasjóði. Þetta gæti numið 20% af brúttósöluverði afla. Misjafnt þó kannski eftir tegundum. Þegar þetta kerfi væri farið að virka myndi verðmyndun verða heilbrigðari. Framboð myndi aukast og allir myndu sætta sig við kerfið vegna þess að þetta væri í raun ekki skattur heldur afgjald.
Ég var einhvern tíma búinn að reikna þetta afgjald upp í 30 milljarða króna. Það er sennilega vanreiknað. Annað sem frambjóðendur þyrftu að velta fyrir sér er hvort ekki sé tími til kominn að nýta fiskveiðiauðlindina á sjálfbæran hátt. Í dag eru flestir stofnar vanveiddir. Mjög auðvelt er að auka veiðina og þar með verðmætið. Öll viðbót við aflann sem í dag er bundinn í kvóta ætti skilyrðislaust að fara til brothættra byggða. Ekki sem byggðaölmusukvóti heldur til nýliða sem vilja leggja sjómennsku fyrir sig án þess að gerast leiguliðar í kvótabraskkerfi skítalabba.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.