12.11.2017 | 15:24
RÚV flytur fréttir
Ef Björn Bjarnason og Páll Vilhjálmsson mættu ráða þá héldu landsmenn að ekkert annað stæði til boða en áframhaldandi kverkatak Sjálfstæðisflokksins á íslenzku þjóðlífi! En þökk sé RÚV þá vitum við betur. Við vitum að hér er annar valkostur í pólitíkinni. Við þurfum ekki að hlusta á freku kallana því við þurfum bara að hafa hátt.
Á sama tíma og Mogginn endurtekur sömu möntruna um nauðsynlegt forystuhlutverk sjálfstæðisflokksins þá flytur RÚV fréttir af spillingarmálum þessara manna í nútíð, fortíð og framtíð. Án RÚV væri pólitíska landslagið öðruvísi. Án fréttaflutnings RÚV hefðu upplýsingar úr Panamaskjölum ekki fellt ríkisstjórn Bjarna og Sigmundar. Án RÚV hefði Hanna Birna aldrei þurft að víkja sem ráðherra og án RÚV væri Sigmundur Davíð enn að styrkja stöðu sína í valdataflinu gegn sjálfstæðisflokknum. Án RÚV værum við enn að borða brúnegg og án RÚV væri enn verið að stunda mansal á Akureyri og Vík! Því RÚV er ekki alltaf að gagnrýna Sjálfstæðisflokkinn. RÚV er að sinna skyldu sinni sem sjálfstæður fjölmiðill og það er að flytja fréttir. RÚV stundar ekki ritskoðun. Þótt mörgum þyki með réttu að einhver slagsíða sé á fréttaflutningnum þá er það óhjákvæmilegt. Fréttamenn eru bara mannlegir.
Í dag heldur RÚV áfram að segja okkur að við getum átt líf án sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn. Þetta viljum við heyra til að geta spurt t.d Katrínu Jakobsdóttur af hverju í fjandanum hún er enn að loka á samstarf með meirihluta þingmanna. Eftir yfirlýsingar Ingu Sæland í dag, er ljóst að það er þingmeirihluti fyrir stjórn án Bjarna og Sigmundar. Það er það sem þjóðin vill. Okkur varðar ekkert um stóla eða völd. Við viljum bara að þessi stjórn verði mynduð og alþingismenn fari að vinna vinnuna sína.
Og við eigum að fá að ráða. Ekki bara í nafni lýðræðis heldur ekki síður í skjóli þess skoðanafrelsis, sem frjáls fjölmiðlun undir forystu RÚV tryggir.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:34 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.