19.1.2016 | 16:58
Sorphirða er grunnþjónusta
Forræðishyggja borgarstjórnarmeirihlutans birtist okkur enn og aftur í ákvörðunum umhverfis og skipulagsráðs. Þetta hlýtur að kalla á kröfu um endurnýjun fulltrúanna sem þangað veljast. Síðast þegar ég vissi vorum við ekki að kjósa okkur fulltrúa til að breyta athöfnum okkar og venjum heldur fulltrúa til að tryggja að ákveðin grunnþjónusta standi öllum til boða óháð efnahag eða búsetu. Hjálmar og Dagur hafa greinilega ekki sama skilning á hlutverki pólitískt kjörinna fulltrúa. Afskipti borgaryfirvalda af daglegu lífi og athöfnum eiga að vera þannig að það skipti ekki máli hverjir stjórna. Við eigum að geta treyst að þjónusta við borgarbúa sé alltaf höfð að leiðarljósi og ef því þurfi að breyta þá sé það útskýrt og sátt verði um það.
Breytingarnar á þessu kjörtímabili varðandi sorphirðumál hafa allar verið einhliða. Ekkert samráð, ekki hlustað á athugasemdir og mál keyrð í gegn með yfirgangi og ofbeldi. Ef íbúar fjölbýlishúsa kvarta yfir þeim breytingum sem hafa verið gerðar á tíðni losana þá á að hlusta á þá gagnrýni en ekki koma með yfirlætisfullar athugasemdir í ræðustól hins verndaða vinnustaðar sem búið er að breyta ráðhúsinu í.
Ég verð að segja að þótt sumir séu í betri aðstöðu heldur en aðrir þegar kemur að sorpflokkun og förgun þá er það ekki réttlæting fyrir að skerða þjónustu þeirra sem ekki standa jafnfætis. Og þetta er stór hópur. Allir þeir sem búa í stórum fjölbýlishúsum og svo fatlaðir og eldra fólk og síðast en ekki síst þeir sem hafa ekki efni á öllum þessum aukatunnum.
Sjálfur nýt ég forréttinda að hafa getað á tiltölulega auðveldan hátt flokkað mitt heimilissorp í meira en áratug. Bæði er að ég bý nálægt grenndarstað og svo get ég nýtt allt lífrænt sorp til moltugerðar. En ég geri mér grein fyrir að þetta geta ekki allir og það er til þeirra sem verður að taka tillit.
![]() |
Hvergi meira val um sorphirðu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.1.2016 | 09:35
Er sjómannaverkfall yfirvofandi?
Var að hlusta á viðtal við Valmund ,formann SSÍ, í Bítinu á Bylgjunni. Samkvæmt honum byggja kröfur sjómanna á 3 grundvallaratriðum:
- Allur afli fari á markað
- Sjómönnum verði bætt afnám sjómannaafsláttarins með dagpeningum
- Lágmarksmönnun á fiskiskipum tryggð
Stórútgerðin virðir þessar kröfur ekki viðlits og það er pínleg staða fyrir sjómenn að vera í. En þetta er staða sem var fyrirsjáanleg og undirritaður hefur margoft fjallað um hér á þessu bloggi. Sjómenn eru vegna fiskveiðilöggjafarinnar réttlausir og ofurseldir ákvörðunum stórútgerðarinnar, sem á 90% veiðiheimildanna í boði kvótaflokkanna á Alþingi. Þessi deila ef deilu má kalla, verður því aðeins leyst með aðkomu löggjafans. Þetta hljóta sjómenn að vita en þeir eru í úlfakreppu hinnar undirliggjandi ógnar að verða sviptir atvinnunni ef þeir dirfast að rífa kjaft. Enda er formaðurinn einn á báti í þessari deilu enginn hefur enn komið fram undir nafni og tekið undir með Valmundi.
Þess vegna verður að skapa stemningu í þjóðfélaginu fyrir breytingum á fiskveiðilöggjöfinni. Stemningu sem stjórnmálamenn gætu ekki hunzað. Því það hefur sýnt sig að þeir standast ekki þrýsting neikvæðrar fjölmiðlaumræðu. En nú er ekki lengur hægt að treysta á hlutleysi fjölmiðla. Eftir að DV rann inn í Vefpressuna er hér bara 1 tiltölulega óháður fjölmiðill, Kjarninn. Og svo náttúrulega sjálfstæðu bloggararnir eins og Jónas.is og Kristinn sleggja. Egill dæmdi sjálfan sig úr leik með því að þiggja laun fyrir sína daglegu pistla enda passar hann vel að styggja ekki valdhafana.
Og þó að Píratar hafi tekið undir kröfuna um breytingu á kvótakerfinu þá skortir þekkingu meðal þingmanna þeirra til að fylgja því eftir. Þeir eru jafnheilaþvegnir af áróðri Hafró og allir hinir þingmenn kvótaflokkanna. Það eina sem þeir staglast á er krafan um uppboð á kvótanum eins og það breyti einhverju! Uppboð á aflaheimildum mun aðeins gera kerfið verra að mínu mati. Þá yrði einokunin fyrst fullkomin því auðvelt væri að yfirbjóða alla samkeppni og stórútgerðin myndi endanlega eignast allan fisk í sjónum.
En að breyta hugarfari heilaþveginnar þjóðar er ærið verkefni og gerist aðeins með litlum skrefum. Fyrsta skrefið væri að þingmenn breyttu lögunum þannig að veiðarnar og vinnslan yrði aðskilin. Þetta eitt og sér væri afar þýðingarmikið skref til að minnka völd einstakra útgerðarmanna. Og ég er viss um að þetta myndu sjómenn sætta sig við til lausnar sínum kjaradeilum að sinni. Þeir vita að krafan um dagpeninga vegna fjarvista nær aldrei fram að ganga og mönnunin er öryggismál en ekki kjaramál.