Et tu, Stefán Ólafsson?

Þessi barátta mín gegn rangri hugtakanotkun fer nú að verða hálfgerð eyðimerkurganga þegar fræðimaður og prófessor, sem sannanlega veit betur kýs að kalla einokun og fákeppni, sem hér hefur viðgengist í skjóli þrískiptingar helstu markaða, samkeppni.

Innkoma Varðar á þennan markað má í besta falli kalla röskun á fákeppnisstöðu hinna þriggja stóru. Það er engin framtíðarlausn á þessum vanda sem fákeppnin skapar,  að flytja viðskiptin tímabundið eitthvað annað.  Það verður að sníða löggjöfina að þeim aðstæðum sem hér ríkja og setja þessu græðgisliði strangar leikreglur. Ef menn ætla að viðhalda loddaraskapnum áfram með dyggri aðstoð fræðimanna og fjölmiðlafólks þá er ekki eingöngu við löggjafann að sakast.  Þá er vandamálið miklu stærra.


Eitthvað fyrir pírata

Ég er ekki sammála þeim sem segja að pírata skorti stefnumál. Hitt er rétt að þeirra vinna hefur um of farið fram underground á netinu.  Og fréttaflutningur helst sá einn sem snýr að persónulegum ágreiningi þingmanna. En þann fréttaflutning ber að taka með fyrirvara í ljósi þess hverjir eiga og reka fjölmiðlana. 

En nú er komið upp mál sem almenningur getur skilið og tekið afstöðu til og sem smellpassar inní hugmyndafræði Pírata. Þetta varðar höfundarrétt, sem málfræðingar holunnar í Árnastofnun telja sig eiga og þurfa að verja gegn vondum útlendingum sem vilja læra málið.

Lesið allt um þetta á síðunni tala.is  og sýnið stuðning í verki.

 

      


Að sleikja rétta rassinn

Þeir sem bítast um innlenda dagskrárgerð fá nú að kenna á markaðsráðandi stöðu RÚV. Rúv ræður því hver lifir og hver deyr á þeim markaði.  Nú hefur Skarphéðinn Guðmundsson ákveðið að slátra Stórveldi Huga Halldórssonar.  Á sama tíma sér maður ný fyrirtæki koma inn hjá RÚV, sem litlar upplýsingar finnast um en hafa það sameiginlegt að setja þennan ríkisstarfsmann, Skarphéðinn Guðmundsson á creditlista framleiðslu sinna.  Þetta heitir á götumáli að sleikja rétta rassgatið. Það eina sem Skarphéðinn leggur til er dagskrárvald RÚV sem stærsta kaupandans á markaðinum.  Þetta er í mínum Huga argasta spilling.

RÚV þarf að taka á þessum málum og uppræta þessi vinnubrögð strax.  Dagskrástjórinn á ekki að vera á creditlista sjónvarpsþáttar frekar en Laufey Guðjónsdóttir á að vera á creditlista kvikmynda sem Kvikmyndasjóður styrkir.  Laufey eins og Skarphéðinn, er bara ríkisstarfsmaður að vinna í almannaþágu.  Nú þarf Magnús sjónvarpsstjóri að ganga í þetta mál.  Uppræta þarf áralanga spillingu sem innleidd var undir stjórn Páls Magnússonar og sem þetta er angi af.  Í leiðinni þarf að rannsaka tengsl Þórhalls Gunnarssonar við dagskrádeildina.

Sérstaklega væri áhugavert að fá upplýsingar um kvikmyndafyrirtækið Task 4 Media og Eirík Böðvarsson og samstarf þeirra við RÚV.  En Task 4 media virðist hafa setið eitt að verkefnum hjá RÚV síðustu 2 ár. Eru þetta starfsmenn RÚV sem verið er að hygla sérstaklega eða eru einhver annarleg sjónarmið sem ráða á bak við tjöldin?

Almenningur á rétt á upplýsingum um fjármál þessa fyrirtækis.  Ég er sannfærður um að þar er ennþá pottur brotinn.


Og þjóðarbúinu blæðir

Flestir sem til þekkja og eru ekki undir hæl ráðuneytisins og Fiskistofu telja að Hafrannsóknastofnun hafi brugðist í öllu, sem viðkemur veiðiráðgjöf undanfarin 30 ár. Sömu menn telja aðferðafræði stofnunarinnar ekkert eiga skylt við raunveruleg vísindi. Hvernig getur það flokkast sem raunvísindi, að búa til líkan í tölvu og mata það með gögnum úr talningarleiðöngrum vor og hausts og búa síðan til formúlu úr samanburðartölunum og kalla hana aflareglu?!  Alvöru vísindamenn myndu aldrei viðhafa svona vinnubrögð og þaðan af síður flokka það sem vísindi. Vegna þess einfaldlega að fiskurinn í sjónum er á hreyfingu og stærsti áhrifavaldur á vöxt og viðkomu fiskstofna eru ekki veiðar. Náttúran er besti veiðiráðgjafinn. Allt frá því að erlend veiðiskip hófu að veiða á íslenskum fiskimiðum, og fram til 1983,fór afli vaxandi, uns hann náði jafnstöðu, sem var 400-500 þúsund tonn af botnfiski á ári. Þessi jafnstöðuafli var einfaldlega afrakstursgeta fiskstofnanna með tilliti til fæðu, veiði, umhverfisþátta (hitastigs og áhrifa frá eldgosum o.fl) og síðast en ekki síst afráns stofnsins sjálfs. En afránið hefur alltaf verið innbyggður sveiflujafnari og skilað miklu betri árangri en allar friðunaraðgerðir Hafrannsóknarstofnunarinnar í gegnum árin.  Því friðun og veiðistýring sem elur upp stórfisk á tímum þegar skilyrði í sjónum eru góð, eru inngrip í náttúruna sem eru bara til bölvunar. Enda tókst fiskifræðingunum á Hafró næstum að ganga af þorskstofninum dauðum árið 2006.  Þá var svo komið eftir 20 ára veiðistýringu að hrygningarstofninn hafði minnkað um 1 milljón tonna frá því sem var í upphafi kvótakerfisins.

Almenn skynsemi og áratugareynsla af fiskveiðum segir mér, að ástæðan fyrir þessum áföllum hjá þorskinum sérstaklega, var af völdum friðunar, of lítilla kvóta með tilheyrandi brottkasti og síðan vaxandi ágengd hvala og síðast en ekki síst afráni þorsksins sjálfs á ungviðinu sem stafaði af versnandi fæðuskilyrðum á þessum árum. 

Að stofninn hafi hjarnað við og sé núna í góðu jafnvægi er ekki Hafrannsóknarstofnun og þeirra gervivísinda að þakka, heldur þvert á móti þrátt fyrir kolranga veiðiráðgjöf þá eru bara umhverfisskilyrðin í hafinu með besta móti. Nóg af æti, hitastig kjörið og aðeins 50% sóknarnýting.  Við þessi skilyrði þá hljóta stofnarnir að sækja í náttúrulegt jafnvægi. Og það mun gerast þrátt fyrir ranga aðferðafræði sem heilaþvegin stjórnmálastétt heldur áfram að trúa á í blindni.

Ráðamenn sem halda áfram að trúa því að veiðiráðgjöf Hafró byggi á vísindum, munu halda áfram að skaða þjóðfélagið með því að verja kvótakerfið og sjálftöku kvótagreifanna úr matarkistunni í sjónum.  Ég ætla ekki að kalla fiskinn auðlind.  Því það er hann ekki í skilningi takmarkaðra gæða af náttúrunnar völdum.  Fiskurinn er bara eins og hver önnur hlunnindi sem ber að nýta til hagssældar fyrir alla en ekki bara 2% ríkustu Íslendinganna úr stórútgerðarstéttinni.


mbl.is Bestu vísindin eru hjá Hafró
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 12. mars 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband