18.1.2017 | 19:33
Bjarni Ben í skjóli Umba
Öfugt við marga þá er ég þeirrar skoðunar að Bjarni Benediktsson sé ekki sá sterki foringi sem haldið er fram. Það er bara leiðtogakreppa í Sjálfstæðisflokknum sem stendur, og það skýrir þögn hins almenna félagsmanns. Ekki hjálpar að varaformaðurinn getur ekki beitt sér sem skyldi og því ekki um annan að ræða en Bjarna, þótt fallið hafi verulega á ættarsilfrið undir hans forystu.
Og þótt umboðsmaður Alþingis víkist undan að taka slaginn við klíkuna í Sjálfstæðisflokknum þá mega menn ekki túlka það sem "hvíttun" af hálfu umba. Miklu líklegra er að við hann hafi verið talað og honum hótað ef hann dirfðist að hefja aðra "lekarannsókn" þar sem formaður flokksins mætti ekki við meiri ávirðingum í starfi.
Ef umbi þorir ekki gegn ráðuneytisklíkunni þá þarf Alþingi að huga að öðrum úrræðum til að koma böndum á embættismannaskrílinn sem öllu ræður bæði beint og óbeint. Við erum ekki búin að gleyma viðbrögðum ráðuneytisstjórans í fjármálaráðuneytinu við Vigdísarskýrslunni alræmdu. Sem svo aftur vekur upp spurningar um raunverulega ástæðu þess að Vigdís dró sig í hlé frá pólitík.
Ætlar Þorsteinn Víglundsson að láta kyrrt liggja? Það er ljóst að það þarf að fara fram innanhúshreinsun í Engeyjarráðuneytunum og það gerist ekki nema kjósendur axli sína pólitísku ábyrgð og hafni afskiptum auðróna af stjórn landsins. Er þá sama hver auðróninn er, Bjarni, Benedikt eða Sigmundur Davíð.
![]() |
Vill að Bjarni geri grein fyrir verkum sínum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.1.2017 | 16:15
Misskilningur hjá félaga Vilhjálmi
Vilhjálmur er einn skeleggasti málsvari launamanna á Íslandi í dag en því miður gætir ákveðins misskilnings hjá honum varðandi sjómannaafsláttinn svokallaða, sem er núna annað af tveimur atriðum sem ekki hefur náðst sátt um gagnvart útgerðarmönnum. Vilhjálmur ber saman dagpeningagreiðslur annars vegar og sjómannaafsláttinn hins vegar og vill sækja bætur til útgerðarinnar vegna afnáms skattaafsláttar í formi sjómannaafsláttar. Þetta er röng kröfugerð og auðvitað hafna útgerðarmenn svona kröfu. Sjómenn eru jú fjarri heimilum vegna vinnu en þeir bera engan kostnað af því fyrst samkomulag er um að útgerðin greiði fæðið. Og útgerðin skaffar jú húsnæðið ekki satt. Þess vegna eru rök Vilhjálms og félaga fyrir að halda þessari kröfu til streitu byggð á misskilningi því þeir vilja varla að löggjafarvaldið bindi enda á deiluna með inngripi sem fæli í sér endurupptöku sjámannaafsláttar.
Sjómannasamningar eiga að vera á milli sjómanna og útgerðarmanna og menn eiga að sjá sóma sinn í að klára þá samninga strax. Kostnaðarþátttöku sjómanna í útgerðarkostnaði verður að linna og tryggja þarf betur ráðningarsamninga sjómanna og tryggja að eftir samningum sé farið undantekningarlaust. Sjómenn ættu að hugsa sig tvisvar um áður en þeir glopra niður hlutaskiptakerfinu. En á því er raunveruleg hætta ef vælið um gengisstyrkingu krónunnar heldur áfram hjá forystumönnum sjómanna.
Sjómenn sitja ekki við sama borð og annað launafólk. Þeirra laun eru gengistryggð. Ólíkt öllum öðrum stéttum, sem hafa tapað á síendurteknum gengisfellingum hafa þessar sömu gengisfellingar fært sjómönnum margfaldar kjarabætur undanfarin 10 ár. Það er í lagi að skila einhverju af því til baka til hins almenna launaþræls í landi sem öfugt við sjómenn hagnast á styrkingu gjaldmiðilsins svo fremi að kaupmenn steli ekki ábatanum jafnóðum. En þar á verkalýðshreyfingin að standa vaktina.
![]() |
Sjómenn eiga að sitja við sama borð og annað launafólk |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)