Hnignun siðmenningar.

Á sama hátt og loftslagsbreytingar ógna siðmenningunni á heimsvísu þá ógnar Samfylkingin siðmenningunni í borg óttans. Þegar maður hélt að ekki væri hægt að leggjast lægra í þjónkun við verktaka og lóðabraskara þá leyfa menn rask á fyrrum helgum reit. Því hvað svo sem menn segja um forna afhelgun þessa parts af miðborginni þá er um fornan greftrunarstað að ræða, sem aldrei stóð til að yrði grafinn upp seinna meir til að þjóna þar Mammoni. Að gera garðinn að lystigarði var ekki afhelgun í sjálfu sér. En skaðinn er skeður. það er búið að moka beinum í uppfyllingar hjá borginni og þótt hægt hafi verið að kaupa sérfræðiálit fornleifafræðingsins sem haft hefur það hlutverk eitt að gefa verkefninu siðferðisvottorð, þá verður engin grafarró á þessum stað framar. Ég trúi á Karma kenninguna og að mönnum hefnist fyrir misgjörðir sínar í þessu lífi. Kannski að Dagur B. geti vitnað um það í næsta fjölmiðlaviðtali þegar hann segir okkur hvað hann og Samfylkingin séu æðisleg!


mbl.is Friðun á borði ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Samfylkingin að verða eins og kirkjan?

Meðferðin á máli Ágústs Ólafs innan Samfylkingarinnar staðfestir að flokkarnir eru í reynd orðnir að stofnunum en ekki félögum fólks um sömu lífsviðhorf.  Af frásögn Ágústs sjálfs er erfitt að dæma um hvort hann gerðist sekur um tilraun til nauðgunar eða hvort áreitnin var eingöngu í orði. Stöðu hans vegna er hvort tveggja óviðeigandi en fyrra brotið ætti að heyra undir lögreglu en ekki til úrskurðar af siðanefnd stjórnmálastofnunar sama hversu siðavönd hún er í orði. Svona afgreiðsla er vond fyrir alla. Fyrir brotaþola, fyrir geranda og fyrir þessa stofnun sem virðist taka sér bæði lögreglu og dómsvald.

Nú verður brotaþoli Ágústs að stíga fram og segja sína sögu a la #metoo. Að öðrum kosti mun þingmaðurinn liggja undir grun um alvarlegri verknað en hann lýsir. Menn leita sér ekki hjálpar þó menn reiðist vegna höfnunar. Viðbrögðin hafa verið sterkari og konan hefði ekki farið svona langt með málið ef hún hefði ekki upplifað neitt ofbeldi.

Persónulegar vammir eru persónulegar. Skiptir engu hvaða stjórnmálaskoðanir fólk hefur. Við gerum held ég flest kröfur um að þingmenn séu með óflekkað mannorð. Það ætti að vera lágmarks krafa. Þess vegna og í ljósi alls sem gengið hefur á held ég að menn hljóti nú að sjá, að það er ekki seinna vænna að Alþingi hunskist til að klára stjórnarskrárfrumvarpið til samþykktar á þessu þingi. Og þá er ég að tala um Stjórnarskrá fólksins.

Allt sem viðkemur Alþingi og starfsemi stjórnmálaflokkanna þarfnast endurskoðunar. Sjálftakan og sjálfhverfan er svo yfirgengileg að gjána er ekki hægt að brúa lengur.  Klausturmálið var bara punkturinn yfir i-ið. 10% þingmanna eru ómerkilegir ruddar og hin 90% skinhelgir hræsnarar sem hugsa flest um flokkana sína en ekki almannahag. Slembiúrtak úr þjóðskrá myndi ekki skila verra úrtaki en þetta lið sem nú vermir þingsæti græðgi og sjálftöku.


mbl.is Óviss hvort málið eigi erindi við siðanefnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. desember 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband