11.10.2010 | 19:05
Um Hafró og "sjálfbærar þorskveiðar"
Jóhann Sigurjónsson, hvalasérfræðingur, telur óráð að auka þorskkvótann um t.d 20 þúsund tonn eins og þjóðarhagsmunir krefjast. Hann telur sig umkominn að dæma alla íslendinga til lakari lífskjara sem því nemur, til þess eins að verja vísindaheiður stofnunar sinnar! Því er til að svara að yfirlýsing Jóhanns um að ekki megi víkja frá aflareglunni vegna þess að það skerði vaxtarhraða stofnsins er ekki byggð á vísindum! Vísindi Hafró eru gervi vísindi byggð á ófullkomnum rannsóknum og lítilli þekkingu á vistkerfi hafsins. Hafró heldur að hægt sé að telja alla fiska í hafinu. Þetta er rangt. Mælitæki Hafró eru og hafa aldrei verið nógu fullkomin. Hins vegar byggja þeir á tilbúnum líkindareikningi um að stór hrygningarstofn skili sjálfkrafa stórum veiðistofni. Þetta er líka rangt. Veiðarnar hafa ekki skýrt sveiflur í afla. Þar hafa umhverfisþættir ráðið mestu. Hlýnun sjávar, sjávarstraumar, eldgos og súrnun sjávar.
Mistök Hafró hafa líka falist í skilningsleysi á mikilvægi fæðuframboðs. Á tímum vaxandi stofnstærðar þorsks hafa þeir ekki takmarkað veiðar á loðnu, gulldeplu og spærlingi. Sem hefur leitt til fæðuskorts og náttúrulegs dauða langt umfram eðlileg vanhöld. Ég ætla ekki að nefna brottkastið þar sem það er meira á ábyrgð stjórnmálamanna en Hafró.
Þriðju mistökin varðandi ráðgjöf Hafró, liggja svo í veiðarfærastjórnuninni eða réttara sagt algjörum skorti á veiðarfærastýringu. Þessi mistök skýra það að sífellt fleiri verslunarkeðjur neita nú að selja þorskafurðir í verslunum sínum. Þetta gera þeir þrátt fyrir stórkarlalegar yfirlýsingar Hafró og ICES um að þorskveiðar í Norður Atlantshafi séu sjálfbærar! Veiðarnar eru langt í frá að vera sjálfbærar.
Á meðan stórvirk veiðarfæri stórra verksmiðjuskipa fá óáreytt að eyðileggja bithagann þá eru veiðarnar ekki vistvænar og ekki sjálfbærar.
Og á meðan uppsjávarskipin fá að skarka með risaflottrollum í göngum síldar, loðnu, kolmunna og makríls þá er vegið að tilvist þessara stofna. Engar rannsóknir liggja fyrir um áhrif flottrollsveiðanna á gönguhegðun torfu fiska. Samt er vitað að veiðarfærin tvístra torfum og raska náttúrulegum göngum auk þess að drepa margfalt það magn sem veiðist. Ég kalla Jóhann Sigurjónsson til ábyrgðar og hans kollega á Hafró
Að endingu eru mér óskiljanleg ummæli formanns sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar Alþingis, Atla Gíslasonar,um að Hafró ráði aflamarkinu. Hvenær fékk hann og hans flokksbróðir Jón Bjarnason þá heimild að framselja ákvörðun um kvótaúthlutun til Hafró? Hafró er lögum samkvæmt aðeins ráðgjafi.
Ég skora á Alþingi að auka kvótann nú þegar og nota tækifærið til að veita nýliðum aðgang að greininni auk þess að setja kvöð um löndun alls afla á markað innanlands. Útflutning á óunnum afla á vegum útgerðarmanna ber að banna. Útlendingar innan EES geta að sjálfsögðu boðið í aflann á mörkuðum en borgi sjálfir flutningsgjöld og gjöld til ríkisins beint af þessum viðskiptum. Svindlið í sambandi við útflutning óunnins afla er til vansa
Flokkur: Sjávarútvegsmál | Breytt 19.1.2011 kl. 15:37 | Facebook
Athugasemdir
Flottur ertu Jóhannes, þjóðinn verður að fara í stríð við Jón Bjarnason, hann verður að leifa frjálsar
handfæraveiðar, þá gætu þúsundir manna búið sér til góð störf.
50 TIL 60 frystitogarar ræna þjóðina lífsbjörginni með því að ryksuga fiskimiðinn og skilja miðinn eftir
í rúst.(eyðimörk) Sendum þessi skip sem Útrásarvíkingar eiga, út fyrir 200 mílur.
Látum Jóhönnu standa við loforðið, frjálsar handfæraveiðar.
Aðalsteinn Agnarsson, 11.10.2010 kl. 20:00
Jóhann talaði líka mikið um skipulag veiða til langs tíma sem mundi skila miklu. Hins vegar sagði hann ekkert um hvað væri langur tími í þessu sambandi. Ég mundi segja að 20-30 ára ráðgjöf Hafró á þessu sviði væri talsvert langur tími, alla vega 2-3 kynslóðir fiska og með ekki betri árangur en Hafró státar af þá er nú varla goðgá að víkja frá 20 % aflareglunni núna þegar illa árar og óþverramenn vaða uppi með leiðindi! Ef ekki núna hvenær þá??????????????????
Ragnar Eiríksson, 11.10.2010 kl. 20:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.