2.11.2010 | 22:31
Um þjóðnýtingu náttúruauðlinda
Nú í aðdraganda stjórnlagaþings lýsti forsætisráðherra landsins Jóhanna Sigurðardóttir , því yfir að hún vildi setja inn náttúru auðlindaákvæði í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Gott og vel, en þarf þá ekki fyrst að skilgreina hvað telst til þessara náttúru auðlinda Íslands? Eða er Jóhanna að lýsa eftir leiðsögn þjóðarinnar varðandi ný orkulög og ný fiskveiðilög? Mín skoðun á þessu er að innihaldslausir frasar eins og "Nytjastofnar á íslandsmiðum eru sameign íslenzku þjóðarinnar" eiga ekkert erindi inn í stjórnarskrána. Á meðan styrinn stendur um nýtingarréttinn þá skiptir eignarrétturinn ekki máli sem slíkur. Allt tal um annað er til þess ætlað að afvegaleiða umræðuna. Í dag er nýtingarréttur og eignarréttur á svokölluðum auðlindum okkar í einkaeigu að stærstum hluta. Ef við viljum breyta því formi þá verður fyrst að þjóðnýta þessar auðlindir og til þess að það sé hægt verðum við fyrst að skilgreina hvað við erum að tala um. Hætt er við að um það náist aldrei sátt þar sem hagsmunirnir snerta of marga. Og þar að auki er þjóðnýting neikvæð aðgerð.
Hins vegar búum við Íslendingar við þann munað að hafa aðgang að gjöfulum fiskimiðum og á þeim byggðum við tilveru okkar í þessu landi í 1100 ár. Engum datt í hug í að eigna sér þessi fiskimið. Fiskimiðin voru bara hluti af landsins gæðum eins og hreina loftið. Nú hefur það hins vegar gerst að brotið hefur verið á atvinnurétti landsmanna með því að festa kvótakerfið varanlega í sessi. Á þessu verður að taka en ekki í gegnum stjórnarskrána að mínu mati. Eina raunhæfa leiðin til að bylta kvótakerfinu er að þjóðnýta nýtingarréttinn og taka kvótann til baka með einu pennastriki. Aflahlutdeild þarf að afnema. Þetta er í raun svo einfalt en því miður eru hagfræðingar komnir með puttana í málið og farnir að flækja það all verulega.
Fyrst og fremst þá eru fiskstofnarnir ekki auðlind
Auðlind er eitthvað sem náttúran skapaði og er þaraf leiðandi takmarkað! Dæmi; námuvinnsla. Fiskstofnarnir eru hins vegar ekki takmarkaðir í sjálfu sér. Hins vegar er hægt að útrýma þeim á margan hátt. En skynsamlegar veiðar eru ekki ógn við fiskstofnana. Því miður þá hefur kvótasetningin beinlínis skaðað stofnana. Fyrir þeirri fullyrðingu get ég fært mörg rök.
- Sókn er beint í stærsta og verðmesta fiskinn sem aftur þýðir:
i) Hrygningarstofn minnkar
ii) Brottkast eykst - Til að gera takmarkaðar veiðar arðbærar hafa verið notuð veiðarfæri sem eru of afkastamikil og sem hafa skaðað lífríkið (hlerar og keðjur til botnvörpuveiða) og skaðað uppsjávarfiska (risaflotvörpur)
- Til að standa undir kostnaði við dýrari skip og dýrari veiðarfæri hefur sóknin aukist í tegundir eins og loðnu sem eru undirstaða í æti annarra nytjastofna
- Of mikil friðun leiðir svo til fæðuskorts sem aftur veldur horfelli hjá stofnunum
Með því að snúa af þessari stefnu getum við gert veiðarnar bæði sjálbærar og arðbærar en það þarf að gerast fljótt. Markaðurinn er að missa þolinmæðina vegna rányrkju núverandi útgerða. Sífellt fleiri stórir kaupendur hafa rift samningum og þeir koma ekki til baka ekki síst vegna þess að fiskurinn sem matur er of hátt verðlagður.
Afþökkum hjálp hagfræðinganna en sérstaklega þó hjálp fiskifræðinganna. Þjóðnýtum kvótann og snúum til fyrri útgerðahátta þar sem byggðirnar blómstruðu vegna dugnaðar og framtaks íbúanna sjálfra. Beitum skynsemi bóndans við veiðistjórnunina. Hlífum sjávarbotninum. Bönnum togveiðar upp í kálgörðum og bönnum rányrkjuna sem felst í flotvörpuveiðunum. En umfram allt verðum við að metanvæða flotann. Þessi notkun á jarðerfnaeldsneyti um borð í flotanum gengur ekki upp á tímum sjálfbærni og umhverfisverndar. Stórútgerðirnar voru mistök.
Eflum einkaframtakið og aukum strandútgerð. En hættum að tala um auðlindir og auðlindarentu. Þessi umræða er á sama lága planinu og hlutabréfaumræðan var fyrir hrun. Hátt fiskverð núna þýðir ekki sjálfkrafa hátt fiskverð til frambúðar. Aðgangur að fiskveiðum á að byggjast á einstaklingum sem vilja stunda útgerð. Ekki fjármagnseigendum sem geta keypt kvóta.
Sendum nefnd Jóns Bjarnasonar þau skilaboð að við viljum ekki tilboðsleið og alls ekki samningaleið. Við viljum bara að sjómenn fái að veiða í friði fyrir öllum þessum fræðingum og stjórnmálamönnum. Ef það gengur vel þá hagnast þjóðin. Það er hennar auðlindarenta
Flokkur: Sjávarútvegsmál | Breytt 19.1.2011 kl. 15:34 | Facebook
Athugasemdir
Flottur, Jóhannes.
Aðalsteinn Agnarsson, 2.11.2010 kl. 23:41
Alveg sammála þér, þekki þessa hluti einmitt svona. Kvótakerfissvikamyllan var einmitt gerð til þess að snúa út peninga úr bankakerfinu, með því að veðsetja óveiddan fisk, fá lán útá veðsetningarnar, hvort sem eitthvað fiskaðist eða ekki,ofaná alltsaman var svo ekkert hald í veðunum, frekar en ómerkilegustu seinni tíma kúlulánum. þarna fengu bankamafíurnar aldeilis eitthvað til að gambla með, enda vafið uppá sig svindlið, skuldafár ónýtra skipa úr sér genginna, tuga ára gamalla, ónýtt drasl, sjá þetta koma hér í Barentshafið, forljótt haugryðgað.skuldandi 600 milljarða, og ekki vantar hagfræðingana í afdalnum utanum ósómann, áfram skal haldið að auka á skuldirnar, þar til allt sekkur.
Robert (IP-tala skráð) 3.11.2010 kl. 10:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.