18.1.2011 | 17:49
Hrokinn og heimskan
Ég get ekki orða bundizt yfir þessum svívirðilegu réttarhöldum yfir níumenningunum sem voru pikkaðir úr 100 manna hópi mótmælenda sem gerðu skurk í húsum Alþingis í kjölfar hrunsins. Þessum átökum hef ég áður líkt við gangnaslag eins og tíðkaðir hafa verið í fjölda framhalds og menntaskóla í tugi ára. Stundum hafa einhverjir minniháttar pústrar hlotist af en aldrei hefur þótt tilefni til höfðunar sakamála né gerðar skaðabótakröfur vegna meiðsla. Í mínum huga þá er ætlun forætisnefndar þingsins að nota þetta tilefni til að hræða menn frá að nota stjórnarskrárbundinn rétt til mótmæla. Þarna kemur heimskan, hrokanum til aðstoðar. Fylgifiskur lýðræðis eru mótmæli og það verða menn að sætta sig við. Ofbeldi getur líka af sér ofbeldi og því þurfa að gilda strangar reglur um beitingu ofbeldis innan veggja þingsins. Þar hafa svokallaðir öryggisverðir með hjálp lögreglu gengið of hart fram og oft að ósekju eins og hægt er að sjá á opinberum upptökum. Það er mín skoðun að eina ásættanlega niðurstaðan í þessum ákærum sé að saksóknari láti ákærur niður falla án eftirmála. Að dómari vísi málinu frá er engin lausn. Þá mun smánin samt hanga yfir forsetum þingsins og viðhalda þeirri gjá sem nú er milli þings og þjóðar. En telji hrokagikkurinn Ásta Ragnheiður, sig hafa verið smánaða fyrir hönd Alþingis, þá er voðinn vís. Hefndarhugur smánaðra kvenna er sterkt afl, og þær fyrirgefa seint og illa. Það þekkja allir sem í hafa lent. En hún situr sem forseti þingsins á ábyrgð meirihlutans og því þarf Jóhanna Sigurðardóttir að taka af skarið og gefa skýr fyrirmæli. Þjóðin ætlast til þess af henni.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:52 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.