30.1.2011 | 00:08
Ég heimta fjölmiðlalög
Ritstjóri Fréttablaðsins hefur varpað af sér grímu hlutleysis og tekið afdráttarlausa afstöðu með LÍÚ, sínum fyrri vinnuveitendum hjá Morgunblaðinu og gegn hagsmunum þjóðarinnar. Morgunblaðinu hefur verið beitt purrkunarlaust af núverandi ritstjóra í þágu eiganda sinna. Ríkisútvarpið er rammhlutdrægt í fréttaflutningi að ég tali ekki um stöð Jóns Ásgeirs, svo nú er svo komið að enginn fjölmiðill stundar lengur óhlutdrægan og vandaðan fréttaflutning. Þetta getur varla talist forsvaranlegt í upplýstu samfélagi. Því þurfum við fjölmiðlalög þar sem tekið verði á, hverjir megi eiga og reka fjölmiðla. Það verði hreinlega bannað að eigendur fjölmiðla eigi jafnframt meirihluta í óskyldum fyrirtækjum í samkeppnisrekstri eins og Davíð vildi á sínum tíma. Einnig þarf að koma á öflugu eftirliti með ritstjórnarlegu frelsi og tryggja hlutlægan fréttaflutning hjá RUV. Fjölmiðladómstóll kæmi vel til greina sem myndi fjalla um kærur á fjölmiðlafólk og einnig kærur vegna mismununar og hlutdrægni. Alla vega er það ástand sem nú ríkir óþolandi. Í fjölmiðlum er ekki sagt satt orð lengur, allt er litað einhverjum hálfsannleik sem gerir alla ringlaða og kemur í veg fyrir sanngjarna og heiðvirða umræðu. Á Alþingi eru menn alltaf annaðhvort að bera af sér sakir eða ásaka.
Og hjá atvinnu bloggurum er hatursáróður er orðið norm en ekki undantekning
Ég tel mig þekkja kjarnann frá hisminu enda búinn að fylgjast lengi með pólitíkinni og þjóðfélagsumræðunni. En það er fullt af fólki sem getur það ekki og verður því auðveldlega fórnarlömb einhliða áróðurs og innrætingar. Stjórnmálaskólar flokkanna eru gott dæmi um þetta. Það kann ekki góðri lukku að stýra. Unga fólkið stendur berskjaldað og að ég tali ekki um allt auglýsinga áreytið. Er nema von að helmingur Íslendinga sé á þunglyndislyfjum og hinn helmingurinn á ofvirknislyfjum?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 05:20 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.